ELSKUM ÍSLAND

Björg Árnadóttir

ELSKUM ÍSLAND!/Kjarninn

Ég missti af víkingaklappinu á Arnarhóli. Mikið hefði verið magnað að sjá jökulinn loga að kvöldi þess dags þegar þjóðin hyllti fótboltamenn sína og þeir þjóðina. Sú stund, en ekki síst undanfari hennar, var nokkuð sem okkur sárvantaði. Ég hlakka til að fylgjast með hvernig við vinnum úr sameiginlegri, jákvæðri reynslu okkar á næstu misserum.

Daginn eftir var mér bættur skaðinn en þá var ég viðstödd viðburð sem framkallaði ekki síður gæsahúð og gleði og minnti á mikilvægi samheldni. Þriðjudaginn 5. júlí söfnuðust tvö hundruð og fimmtíu söngmenn og konur saman í félagsheimilinu Skjólbrekku í Mývatnssveit. Tilefnið var að ástkær söngstjóri allra landsmanna, organistinn Jón Stefánsson eða Jónsi eins og hann var kallaður hér í sveit, hefði orðið sjötugur en Jón lést í vor.

Söngelskir Þingeyingar túlkuðu fjárlögin þetta kvöld með aðstoð framúrskarandi söngstjóra og meðleikara. Þeir sem þekkja ekki fjárlögin gætu haldið að fólk hefði safnast saman til að syngja lagafrumvarp (sem væri reyndar ágætis hugmynd) en söngfólk veit að fjárlögin eru safn íslenskra ættjarðarlaga. Nafngiftin mun til komin vegna forsíðumyndar af kindahjörð á fyrstu útgáfu bókarinnar. Fyrir aldarfjórðungi stóðu Jón Stefánsson og Margrét Bóasdóttir, annar ástsæll tónlistarmaður úr Vogum í Mývatnssveit, fyrir endurútgáfu fjárlaganna og nú þekkja allir bassar, tenórar, altar og sópranar landsins bláa og gula heftið sem við vorum með í höndunum þessa kvöldstund nema náttúrlega innfæddir Mývetningar sem lærðu sína rödd í móðurkviði.

Ég vil láta það sjá margan hamingjudag

„Ég vil elska mitt land, ég vil auðga mitt land, ég vil efla þess dáð, ég vil styrkja þess hag,“ sungum við á gönguhraða. Þegar ég leit upp úr nótunum á söngstjórann Garðar Cortez fannst mér eitt andartak að Lars Lagerbäck stæði við stjórnvölinn. Þeir eiga sameiginlega ósérhlífna ást á viðfangsefnum sínum sem gera þá að listamönnum.

Áfram var sungið og Margrét, sem stóð fyrir þessum skemmtilega viðburði, minnti á hve mörg íslensk ættjarðarlög eru sænsk að uppruna og upphaflega drykkjuvísur! Takk, Svíþjóð, fyrir að auðga mitt land með drykkjuvísum og fótboltaþjálfurum. Takk, þjóðir heims, fyrir allt sem þið hafið fært okkur. Menningarlega einangruð værum við ekki líkleg til stórræða. Góðir hlutir gerast þegar menningarstraumar fljóta óhindraðir yfir landmæri eins og saga íslenskra bókmennta vitnar um.

Hrein ást og hagsmunasnauð

„Þetta er játningin mín, kæra móðir til þín, ég get miklast af því að ég sonur þinni er,“ sungu synir og dætur þessa lands og ég heyrði konuna fyrir aftan mig segja að Jónsi hafi alltaf kallað þann stað  „samgróningana“ þar sem sópraninn fer upp á tvístrikað f í ljóðlínunni um að svipur ættjarðarinnar sé „samgróinn öllu því besta hjá mér.“

Stolt er hollt hvort heldur með rödduðum eða órödduðum frumburði. Það er gott að vera stoltur af sjálfum sér, landi sínu og þjóð þegar það á við. Ég er stolt af íslensku íþrótta- og listafólki sem fær okkur til að standa saman – ekki gegn umheiminum heldur með honum. Það er líka gott að elska eitthvað sem maður getur ekki slegið eign sinni á. Ég ber sterkar tilfinningar til Mývatnssveitar þótt ég greiði hér hvorki útsvar né atkvæði. Heima felli ég sjaldan tár yfir fegurð Esjunnar en hér hágrætir hún mig, fjalladrottningin, sumar, vetur, ár og daga.  Í ljóði sínu Auguries of Innocence orti William Blake (1757-1827) um það að sjá veröldina í einu sandkorni og himnaríki í villtri jurt. Samfélagið hér við Mývatn er varla stærra en sandkorn í alþjóðlegu samhengi en hér sé ég þversnið af allri heimsbyggðinni.

Af meintri þrætugirni Mývetninga

Frá gamalli tíð þekki ég kynslóðina sem nú er að hverfa, fólkið sem ólst upp í samfélagi sem lítið hafði breyst frá því að Reykdælasaga og Víga-Skúta var skrifuð, fólkið sem valdi að búa hér vegna landkosta sveitarinnar og hlunninda. Ég þekki líka næstu kynslóð, þá sem byggði upp iðnað og myndaði þéttbýli þegar landbúnaður nægði ekki til framfærslu. Fólkið sem sá virkjanir og efnavinnslu kljúfa forna samheldni en upplifði einnig „hvað vor eining mikils má“ þegar Krafla minnti eftirminnilega á sig með eldhræringum hátt í áratug. Og nú hef ég kynnst kynslóðinni sem mest mæðir á við uppbyggingu nýrrar atvinnugreinar. Ferðaþjónusta er reyndar ekki ný af nálinni í sveit þar sem fyrir kom að ábúendur hrökkluðust af jörðum sínum vegna gestanauðar en sem stóriðja virðist hún vera framtíðin.

Úr andlitum Mývetninga les ég atvinnusögu Íslands. Oft eru þeir sagðir þrætugjarnir en þrætugirni finnst mér ekki meiri hér en á landsvísu. Þróun atvinnuvega setur Mývetninga hins vegar oft í þá stöðu að þurfa að takast á. Ég held að hvert styggðaryrði sem hér fellur, hver vanhugsuð athöfn og hver mannlegur harmleikur sé blásinn upp í öðrum landshlutum vegna þess að örsamfélagið við Mývatn er það sandkorn sem við getum skoðað okkur sjálf í. Við glottum þegar við heyrum um ósætti – já svona eru þeir þrætugjarnir enda hver undan öðrum –  en í raun eru deilur við Mývatn fréttaefni af því að þær spegla ósættið í okkar eigin ranni. Deilur í Mývatnssveit eru örsmá útgáfa af landlægu ósætti Íslendinga.

Við erum heppin með ferðamenn

Flestir sækja Ísland heim af einskærum áhuga á landinu og æ fleiri vilja kynnast þjóðinni líka. Ég er svo heppin að fá að hitta þessa góðu gesti sem auðga vort land og efla vorn hag. Stundum eyðileggja þeir reyndar óvart þá einstöku náttúru sem þeir koma til að dást að en reynsla mín er sú að ferðamenn eru fúsir til að deila ást okkar á landinu ef við kennum þeim að umgangast það (og göngum á undan með góðu fordæmi). Ferðaþjónustan skilur eftir sig fleiri spor en flestar aðrar atvinnugreinar vegna þeirra áhrifa sem hún hefur á mannlífið. Samfélag sem opnar sig ferðamönnum er svipt sakleysi sínu og gestirnir gera okkur Íslendinga að fullvaxta þjóð.

Þegar ég kem í Jarðböðin við Mývatn stendur Kínamúr við afgreiðsluborðið og ofan í lóninu opnast mér nýir menningarheimar. Þar sá ég í fysta sinn konu í sundbúrku og sama dag fylltist lónið af krullhærðum síðskeggjum í sundbolum með hvirfilskýlur Drottni til dýrðar. Í sturtunni í Jarðböðunum hef ég samt áttað mig á hversu einsleitt mannkyn er þegar það er nakið. Mannkynið er einsleitasta dýrategund jarðar. Ef fiskaðir væru af handahófi tveir túristar úr lóninu væru 99.925 prósent erfðaefna þeirra það sama.

Hulda fólkið

Samt virðist forritað í þetta mannkyn að óttast annað fólk. Gamla testamentið er vettvangsrannsókn á þeim erfiðleikum sem mæta flóttamönnum og farandverkafólki enn þann dag í dag. Nýja testamentið, sem og flest nýrri trúar- og heimspekirit, er hins vegar sjálfshjálparbók fyrir mannkyn til að vinna bug á óttanum við hið óþekkta.

Ég þekki huldufólkið í Mývatnsveit af því að ég tilheyri því sjálf. Átta hundruð hendur fjögur hundruð heimamanna geta illa sinnt hundruðum þúsunda gesta og því streymir hingað hulduher sem réttir hjálparhönd við landbúnað, ferðaþjónustu og störf til verndunar vatninu. Heimamönnum í öllum heimshornum hættir til að sjá farandlýðinn sem andlitslausan massa sem á einhvern hátt hefur komist hjá því að eiga sögu og sál en ég veit að við hvert uppvask í Mývatnssveit stendur efniviður í skáldsögu og auðvitað efni í nýjan Mývetning.

Gefum okkur að við viljum tala íslensku

Um daginn sagði ég í hálfkæringi í hópi heimamanna að líklega væri besta leiðin til að viðhalda íslenskri tungu að flytja inn sem flest fólk. Mér til furðu tóku menn undir þetta með eftirfarandi rökstuðningi: Gefum okkur að við viljum halda áfram að vera þjóð sem talar íslensku. Mesta hættan sem steðjar að málinu mun vera sú að stafræna byltingin nær illa til fámennra málsvæða enda verða ryksugur ekki forritaðar til að tala íslensku nema þeim fjölgi sem vilja hafa samskipti við tækin sín á þeirri tungu. Mannfjöldaspár gefa til kynna verulega stækkun þjóðarinnar en segja jafnframt að stækkunin komi nær öll að utan. Viljum við viðhalda íslenskri tungu verðum við að auðvelda nýjum Íslendingum að eiga við okkur samskipti á því ástkæra og ylhýra og þannig aukast stafrænir möguleikar tungumálsins til að lifa af.

Og kona nokkur bætti við: „Af hverju getum við ekki fengið hingað eitthvað af því fólki sem verið er að reka úr landi? Þetta er fólk sem vill  búa meðal okkar en í staðinn fáum við á hverju vori nýjar sendingar sem við náum aldrei að kynnast.“ Ég held því ekki fram að þetta sé ríkjandi viðhorf í sveitum landsins en finnst áhugavert að heyra það frá konu sem hefur aldalangar rætur í íslenskri sveit og puttann á púlsi ferðaþjónustunnar.

Því fleiri sem elska Ísland þeim mun betra

Ást er ekki munaðarvara sem þrýtur vegna ofnotkunar. Ástina þarf ekki að spara vegna þess að því meira sem tekið er af henni þeim mun hraðar fjölgar hún sér. Ég elska Jón Stefánsson, Margréti Bóasdóttur og Garðar Cortez fyrir að hafa sameinað okkur í söng um ást á ættjörðinni. Ég elska Lars Lagerbäck og sænska drykkjusöngva sem falla svo vel að íslenskri ættjarðarást. Ég elska Svíþjóð sem veitti mér um hríð hæli til að vaxa og dafna. Reynsla mín er sú að innflytjendur elska nýja landið jafnvel heitar en heimamenn að því gefnu að vel sé tekið á móti þeim.

Í öllum trúarbrögðum heims má finna hvatningu um að elska náungann eins og sjálfan sig. Kannski þurfum við að elska okkur sjálf aðeins betur til að geta sameinast í ástinni á ættjörðinni og því einsleita mannkyni sem við tilheyrum. Elskum Ísland og hjálpum öðrum að gera það líka!

Höfundur hefur skrifað bókina LAKE MÝVATN – people and places (Stílvopnið 2015).

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Scroll to top