Hvaða námskeið á ég að velja?

ÖLL NÁMSKEIÐ STÍLVOPNSINS EIGA ÞAÐ SAMEIGINLEGT AÐ:

  • þátttakendur hafa mismikla reynslu af því að skrifa en lögð er áhersla á að skapa lærdómsumhverfi þar sem hver lærir af öðrum
  • áhersla er lögð á að hver og einn finni eigin höfundarrödd og viðfangsefni og komist yfir hugsanlegan ótta við að skrifa
  • kennslan hverfist í kringum þá texta sem verða til á námskeiðinu
  • hver og einn ákveður hversu mikla vinnu og metnað hann leggur í skrif sín og ekki er krafist heimavinnu.
  • þátttakendur nota þau tæki sem þeim hentar til að skrifa
  • margir hópar eða einstaklingar innan þeirra halda áfram að hittast, skrifa og skrafa að námskeiði loknu.

HVER ER MUNURINN Á NÁMSKEIÐUNUM?

Skapandi skrif (12 klst., þrjú skipti, oftast helgarnámskeið)

Hér er lögð áhersla á að skrifa skáldskap. Ákveðnir þættir sagnaritunar eru þjálfaðir og þátttakendum hjálpað að sækja efni í eigin hugarheim eða reynslu. Flestir skrifa sögur en sumir nota þó æfingarnar sem innblástur til að skrifa leikrit eða ljóð. Frelsi ríkir um form og innihald enda er meginmarkmiðið að opna fyrir sköpun í rituðu máli. Í lok námskeiðs hafa þátttakendur skrifað tilbúinn texta eða drög að textum. Námskeiðin eru oft haldin um helgar. Þau eru snörp og tíminn nýttur vel til að skrifa og ræða um skrifin.

Spurning: Hvort hentar mér betur að sækja námskeiðið skapandi skrif eða skapandi skrif – ferð hetjunnar? Svar: Hetjuferðin telst líklega flóknara námskeið og því betra að byrja á skapandi skrifum ef þú hefur ekki mikla reynslu.

Að skrifa endurminningar (16 klst., fjögur skipti, vikulega í fjórar vikur)

Hér er lögð áhersla á að rifja upp endurminningar, ræða um þær og skrásetja þær. Námskeiðið er lengra en námskeið í skapandi skrifum og meiri tími fer í umræður. Þar af leiðandi er minna skrifað í tímunum en námskeiðið stendur yfir í fjórar vikur og því gefst þátttakendum tími til að hugsa, afla efnis og skrifa á milli funda ef þeir kjósa. Áhersla er lögð á að skoða eigin minningar eða annarra og leita leiða til að skrifa óskáldaða (non-fiction) texta. Sumir koma einkum til að minnast en aðrir til að skrifa. Sumir leggja áherslu á eigin minningar en aðrir vilja skrásetja sögur annars fólks. Fólk á öllum aldri sækir námskeiðin enda þurfa minningar ekki að vera gamlar.

Hvort námskeiðið á ég að velja?

  • Hugnast þér betur að skrifa um skáldaðar persónur og atburði? Veldu skapandi skrif.
  • Hugnast þér betur að setja á blað hið liðna? Veldu endurminningaskrif.
  • Margir velja bæði námskeiðin.

Greinaskrif (12 klst., þrjú skipti, um helgar eða vikulega)

Hér er lögð áhersla á að þátttakendur finni það sem þeir hafa til málanna að leggja í samfélagsumræðunni og leiti leiða til að koma skoðunum sínum og þekkingu á framfæri. Farið er í gegnum ritunarferlið allt frá því að hönd er fest á hugmynd og til þess að viðbrögðum lesenda er svarað. Drög að grein er skrifuð í áföngum með umræðum á milli (oft áköfum) um innihald og efnistök.