SKAPANDI SKRIF

Skrifaður er skáldskapur og með stuttum æfingum er farið í gegnum helstu þætti sagnaritunar. Ekki er farið sérstaklega í leikritun og ljóðlist en þeir sem helst fást við slík skrif hafa oft aðlagað viðfangsefni sín að sagnaritunaráherslu námskeiðsins. Mikil vinnusemi ríkir á þessu námskeiði sem lýkur með að þátttakendur nota þekkingu sína til að skrifa smásögu eða stutta frásögn.

Skapandi skrif er tólf klukkustunda námskeið, oftast haldið um helgar.

Námskeiðið sækja jafnt þau sem enga reynslu hafa af skrifum og útgefnir rithöfundar – og allt þar á milli.

Næstu námskeið verða haldin á vorönn 2020.

SKAPANDI SKRIF: FERÐ HETJUNNAR

Hetjuferðin byggir á hinni þekktu frásagnaraðferð The Hero´s Journey, sem oftast er kennd við bandaríska goðsagnafræðinginn Joseph Campbell. Þátttakendur kynnast hugmyndinni um hetjuna sem heyrir kall til ævintýra og breytinga, horfist í augu við hindranir til að geta hlýtt kallinu, ferðast um land hins óþekkta þar sem hún mætir ögrunum og hindrunum og deyr jafnvel táknrænum dauða áður en hún endurfædd fer í gegnum friðþægingu, öðlast við það gjöf og snýr umbreytt til fyrri veruleika.

Hetjuferðin er þekkt úr goðsögum, en einnig úr kvikmyndum og bókmenntum samtímans, ekki síst fantasíubókmenntum. En hetjuferðin er ekki síður ferðalag okkar allra um eigið líf og námskeiðið snýst því jöfnum höndum um að skrifa bókmenntatexta um skáldaðar hetjur og að skoða eigin innri hetjuferð. Mikil vinnusemi ríkir á námskeiðinu, mikið er skrifað en jafnframt kafað með textarýni í tilfinningar tengdar hetjuferðinni.

Ferð hetjunnar er tólf klukkustunda námskeið, oftast haldið um helgar.

Námskeiðið sækja jafnt þau sem enga reynslu hafa af skrifum og útgefnir rithöfundar – og allt þar á milli.

Næsta námskeið er 15. – 17. nóvember 2019 og fleiri á vorönn 2020.

ENDURMINNINGASKRIF

Notaðar eru margvíslegar kveikjur til að vekja upp minningar um sjálfa sig og aðra. Kynntar eru ýmsar aðferðir til að skrá minningar og rætt um dagbækur, minningargreinar, ævisögur, sjálfsögur og fleiri endurminningaform.

Fólk sækir námskeiðið af ólíkum ástæðum. Sumir koma aðallega til að rifja upp og minnast viðburða og tilfinninga úr eigin ævi, öðrum finnast endurminningaskrif tilvalin leið til að byrja að skrifa og enn aðrir eru langt komnir með að skrifa verk byggð á eigin endurminningum eða annarra. Námskeiðið er þó ekki fagnámskeið um ævisagnaritun.

Fólk á öllum aldri sækir námskeiðið enda þurfa minningar ekki að vera gamlar. Aldursbil þátttakenda getur verið fimmtíu ár sem gefur samverunni aukið gildi. Á þessu námskeiði er ekki skrifað jafnt og þétt eins og á öðrum námskeiðum Stílvopnsins heldur eru mörg verkefnanna þannig að hver og einn getur valið hvort hann leysir þau og hvenær en einnig er hægt að deila með hópnum öðrum skrifum en þeim sem verða til á námskeiðinu. 

Endurminningaskrifin eru ýmist fjögur kvöld (16 klst.) eða helgarnámskeið (12 klst.).

Endurminninganámskeið er í gangi en það næsta verður haldið á Ísafirði 8. – 10. nóvember. Fleiri námskeið verða haldin á vorönn á vorönn 2020.

ÞEKKING, REYNSLA OG SKOÐANIR Í RITUÐU MÁLI (GREINASKRIF)

Þátttakendur þjálfast í að skrifa greinar eða færslur á samfélagsmiðlum um þekkingu sína og viðhorf þannig að skrifin höfði til hins almenna lesenda. Þátttakendum er hjálpað að finna það viðfangsefni sem brennur á þeim, afmarka það og læra um það helsta sem einkennir góðar greinar. Viðfangsefnið er nálgast í litlum skömmtum en í lok námskeiðs hafa þátttakendur skrifað drög að stuttri grein. Þar sem viðfangsefni flestra vekja áhuga allra verða gjarnan líflegar umræður um samfélagsmál á þessu námskeiði.

Námskeiðið sækir bæði fólk sem litla reynslu hefur af því að skrifa og birta skrif sín og þeir sem eru því alvanir. Námskeiðið sækir oft háskólamenntað fólk sem vill tileinka sér að koma þekkingu sinni á framfæri á þann hátt að skrifin höfði til hins almenna lesenda.

Næsta námskeið verður helgina 8. – 10. nóvember og fleiri á vorönn 2020.

BATAFERÐ HETJUNNAR

Á námskeiðinu er notaðar margvíslegar skapandi aðferðir til batavinnu þar sem hinn þekkti þroskahringur Ferð hetjunnar (The Hero´s Journey) er speglaður í sporunum tólf sem mörg sjálfshjálparsamtök styðjast við. Hvorki er nauðsynlegt að hafa forþekkingu á hetjuferðinni né sporavinnunni. Námskeiðið er kynskipt og er nú aðeins ætlað konum. 

Námskeiðið er tólf stunda helgarnámskeið.

Næsta námskeið verður helgina 1. – 3. nóvember og fleiri á vorönn 2020. 

UPP ÚR SKÚFFUNUM – KVÖLDSTUND FYRIR SKÚFFUSKÁLD

Kvöldstund fyrir þá sem einkum hafa skrifað fyrir skúffuna en langar til að ræða um texta sína við aðra og fræðast um útgáfuleiðir. 

Námskeiðið er fjögurra stunda kvöldnámskeið.

Næsta námskeið verður miðvikudaginn 30. okt. og fleiri á vorönn 2020. 

KENNSLUFRÆÐI RITLISTARKENNSLU

Námskeiðið fjallar um skapandi og valdeflandi aðferðir í ritlistarkennslu. Það byggir á fyrirlestrum um aðferðafræði ritlistarkennslu sem Björg Árnadóttir hefur lært og þróað á rúmlega þrjátíu ára kennsluferli, innlögnum verkefna, eigin skrifum og umfjöllun um úrlausnir. Í lok hvers dags er rætt um hvernig nota má verkefni dagsins við kennslu á mismunandi skólastigum.

Í upphafi er ritunarferlið kannað og æfingar gerðar til að komast yfir óttann við hvíta blaðið. Því næst er athyglinni beint að ýmsum þáttum sagnaritunar og því næst að því hvernig nota má eigið líf sem umfjöllunarefni. Megináhersla er lögð á að sýna hvernig veita má nemendum hvatningu til að skrifa þótt einnig sé um það fjallað hvernig má fá þá til að deila skrifum sínum með öðrum. Að námskeiði loknu ættu þátttakendur að hafa fengið innblástur til eigin skrifa og til að nota ritlist meira í móðurmálskennslu. 

Námskeiðið var síðast haldið sem þriggja daga endurmenntun fyrir Samtök móðurmálskennara í ágúst 2019. Næst er það haldið þegar um það beðið. Lengd fer eftir þörfum námskeiðskaupa.

Einnig er hægt að fá fyrirlestur um efnið. 

Öll námskeið Stílvopnsins eiga það sameiginlegt að:

  • þátttakendur hafa mismikla reynslu af því að skrifa en lögð er áhersla á að skapa lærdómsumhverfi þar sem hver lærir af öðrum
  • áhersla er lögð á að hver og einn finni eigin höfundarrödd og viðfangsefni og komist yfir hugsanlegan ótta við að skrifa
  • kennslan hverfist í kringum þá texta sem verða til á námskeiðinu
  • hver og einn ákveður hversu mikla vinnu og metnað hann leggur í skrif sín og ekki er krafist heimavinnu.
  • þátttakendur nota þau tæki sem þeim hentar til að skrifa
Scroll to top