HVERSU SJÚKT VÆRI ÞAÐ?

Björg Árnadóttir/Kjarninn

 

Ég var tíu ára þegar Valur mætti Benfica á Laugardalsvelli. Ég hafði ekki snefil af fótboltaáhuga og reyndar höfðu boltaleikir brotið mig niður af því að ég var alltaf kosin síðust í liðin. Samt ákvað ég að nota sparifé mitt til að kaupa miða á leikinn og svo sat þessi stelpa, alein í fjöldanum, og horfði á fótafima karla í leik sem hún skildi ekki. Mér fannst þetta bara of merkilegur viðburður til að láta hann framhjá mér fara.

Ég var fjórtán ára þegar Fischer mætti Spassky í Laugardalshöll. Þótt ég kynni varla mannganginn fylgdist ég með einvígi þeirra í návígi. Mér fannst ég ekki mega missa af því að dvelja undir sama þaki og þessi heilafimu stórmenni þótt ég skildi hvorki leikreglur skákarinnar né hinna kaldstríðandi stórvelda sem að skákmönnunum stóðu.

Frá barnæsku hef ég gert mér far um að sækja listviðburði. Það hef ég hins vegar ekki gert vegna þess að mér finnist viðburðirnir svo merkilegir heldur af því að frá unga aldri hef ég skilið  leikreglur listarinnar. Listaverk tala til mín og við mig og einhverra hluta vegna hef ég alltaf skynjað alla þá vinnu sem liggur að baki listinni. Sem barn hitti ég aldrei á boltann og tefldi ævinlega af mér en ég naut nokkurrar virðingar fyrir að vera drátthög, ritfær og músíkölsk. Við erum svo misjöfn, mannfólkið, og bætum hvert annað upp. Blessunarlega.

Þjóð með sjálfmynd og framtíð

Mér skilst að helsta ástæða velgengni okkar Íslendinga í boltaíþróttum sé sú að við byggjum á breiddinni. Hin ýmsu landslið okkar jafnast á við landslið fjölmennra þjóða af því að við höfum skapað þennan breiða grunn boltastelpna og stráka, þennan botngróður sem skýlir hágróðrinum. Allt þetta afreksboltafólk sem við dáum af verðleikum er svona leikið með boltann af því að stór hluti Íslendinga hefur fengið tækifæri til að æfa boltaíþróttir. Og ég trúi því að nú á dögum sé passað upp á að enginn sé alltaf valinn síðastur!

Ég horfi enn á mikilvægustu leikina þótt ég skilji ekki leikreglurnar fullkomlega. Stundum hneykslast ég á körlunum í FIFA, stundum óskapast ég yfir samfélagslega dýrum íþróttameiðslum og stundum fussa ég og sveia yfir fullum bullum sem fylgja boltanum. En ég hef aldrei séð eftir krónu af því skattfé sem rennur til íþrótta. Fólk þarf ekki bara brauð, við þurfum leika eins og Forngrikkir bentu á. Íþróttir eru eitt af því sem skapa jákvæða sjálfmynd þjóða. Ef við sem þjóð ættum ekki hluti til að rífast um og sameinast um, elska að hata og hata að elska, þá værum við þjóð án sjálfsmyndar. Við litum í spegilinn og sæjum ekkert. Hversu sjúkt væri það?

Íþróttir eru salt lífsins – líkt og listirnar. Snorri og Laxness hefðu ekki orðið fræg nöfn nema vegna almenns bókmenntaáhuga þjóðarinnar og Björk og allir nýju heimsfrægu listamennirnir okkar njóta þess hve margir eru hér að skálda og skapa, læra á hljóðfæri og syngja í kór, dansa tangó og fremja gjörninga. Ég hef aldrei séð eftir eyri af þeim skattpeningum sem renna til lista. Oft hef ég ekki skilið listaverk, fundist þau ljót eða hugsað að sjálf hefði ég gert þau öðruvísi. En list sem ég skil ekki sýnir mér fjölbreytileika samferðafólks míns og neyðir mig til að líta í eigin barm.

Björn Th. Björnsson, sem kenndi mér listasögu í gamla Myndlista- og handíðaskólanum, sagði eitthvað á þá leið að lífið væri verundin en listin verðundin. Listin bendir okkur á það sem koma skal, hún er á undan sinni samtíð og hefur því alltaf vakið hneykslan. Án listar værum við þjóð án framtíðar. Hversu sjúkt væri það?

 

Scroll to top