Hetjuferðin – námskeið fyrir framhaldsskólakennara

Hvað er Hetjuferðin (The Hero´s Journey)?

Á námskeiði Samtaka list- og hönnunarkennara sem opið er öllum framhaldsskólakennurum verða kynntar aðferðir til sjálfstyrkingar og valdeflingar sem byggja á hugmyndafræði hetjuferðarinnar, en það er þekkt hugtak í frásagnar- og goðsagnafræðum. Ýmsir fræði- og listamenn hafa þróað þá hugmynd að flestar sögur heims, jafnt fornar goðsagnir sem bækur og kvikmyndir nútímans, en ekki síst lífssögur fólks, fjalli um hetju sem stígur inn í heim ævintýrisins, mætir þar ögrunum og hindrunum, deyr táknrænum dauða, endurfæðist, vinnur sigra, öðlast gjafir og snýr sem umbreytt manneskja aftur til fyrri veruleika.  Hugmyndafræði hetjuferðarinnar er kennd við bandaríska goðsagnafræðinginn Joseph Campbell (1904-1987) en ofangreint HIT verkefni snerist þó einkum um að aðlaga heildrænar aðferðir leikhússmannsins Paul Rebillot (1931-2010) að hugmyndum nútímans um valdeflandi vinnu með nemendum og skjólstæðingum.

Vinnuferli og aðferðir:

Þátttakendur eru leiddir í gegnum um hin ýmsu stig hetjuferðarinnar. Þau leita hetjunnar hið innra og yfirstíga tálma sem hindra för þeirra inn í land hins óþekkta þar sem áskorunum er mætt og þátttakendur öðlast gjöf sem þeir taka með sér aftur til síns heima. Á þessu námskeiði byggja leiðbeinendurnar fjórir á hugmyndafræðinni sem þau lærðu í evrópska samvinnuverkefninu en nota eigin, gamalreyndar kennsluaðferðir til að leiða þátttakendur um lendur hetjunnar.

Leiðbeinendur og aðferðir þeirra:

Námskeiðið er þriggja daga vinnustofa sem byggir á virkni þátttakenda. Í upphafi er fjallað um hetjuferðina, tilurð hennar, tilgang og mátt. Þá tínir Rúnar Guðbrandsson, leikari, leikstjóri og leiklistarkennari upp úr verkfærakistu sinni æfingar sem koma þátttakendum af stað í leiðangur hetjunnar. Valgerður H. Bjarnadóttir sagnakona tengir hetjuferðina við íslenskan goðsagnaarf og fer með þátttakendur í draumferð á vit hetjunnar. Sigríður Margrét Eymundardóttir myndlistarkennari tekur við upplifunum þátttakenda með aðferðum myndlistar og annarar skapandi kennsluaðferða og að lokum hnýtir Björg Árnadóttir ritlistarkennari ferðina saman með aðferðum skapandi skrifa og endurminningaskrifa. Þannig má í stórum dráttum lýsa námskeiðinu sem byggir þó á stöðugri samvinnu leiðbeinandanna í hverju skrefi ferðarinnar.

Nánar um leiðbeinendur:

Björg Árnadóttir útskrifaðist sem myndlistarkennari frá MHÍ árið 1983. Næstu árin starfaði hún sem „kulturpedagog” hjá Norrbottens Bildningsförbund í Svíþjóð þar sem hún kynntist notkun skapandi greina í vinnu með jaðarsettum hópum í valdeflandi tilgangi og kynntist auk þess ritlistarkennslu sem hún hefur fengist við æ síðan. Hún lagði stund á blaðamennsku í Kalix Folkhögskóla í Svíþjóð og starfaði í áratugi við fjölmiðlun á Íslandi og í Svíþjóð. Í rúman áratug stjórnaði Björg fullorðinsfræðslufyrirtækjunum Símenntunarmiðstöð Vesturlands, Framvegis og Námsflokkum Reykjavíkur og tók þátt í þeirri uppbyggingu símenntunar á Íslandi sem átti sér stað um síðustu aldamót. Björg lauk M.Ed gráðu frá HÍ og LHI árið 2006 í kennslu skapandi greina og skipulagi fullorðinsfræðslu með áherslu á námskrá. Björg hefur starfað sjálfstætt innan vébanda ReykjavíkurAkademíunnar frá árinu 2008, einkum við ritstörf og ritlistarkennslu sem hún hefur þróað innan fyrirtækis síns, Stílvopnsins. Síðastliðinn áratug hefur Björg tekið þátt í tíu fjölþjóðlegum samstarfsverkefnum um skapandi og valdeflandi kennsluhætti.

Margrét Sigríður Eymundardóttir lauk BA prófi frá LHí árið 2000 með áherslu á gjörninga og samtímalist. Hún útskrifaðist árið 2007 með M. Sc próf í umhverfisfræðum en í náminu rannsakaði hún íslenskt landslag út frá myndrænum þáttum þar sem hún skoðaði liti sérstaklega. Að loknu kennsluréttindanámi árið 2010 hefur Margrét kennt list- og verkgreinar og umhverfisfræði og fengist við sérkennslu. Hún útskrifaðist með M.Ed próf frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands með áherslu á skapandi kennsluhætti og námsefnisgerð.

Rúnar Guðbrandsson nam upphaflega leiklist í Danmörku og starfaði þar sem leikari með ýmsum leikhópum um árabil. Frekari þjálfun naut hann m.a. hjá Odin leikhúsinu í Holsterbro, hjá leikhópi Jerzy Grotowkis í Wroclaw í Póllandi, Dario Fo á Ítalíu, Jury Alschitz í Kaupmannahöfn og víðar og hjá Anatoly Vasiliev í Mosku. Rúnar lauk MA og M Phil gráðum í leiklistarfræðum og leikstjórn frá De Montfort háskólanum í Leicester í Englandi og hefur lokið fyrri hluta doktorsnáms í fræðunum. Hann hefur leikstýrt fjölda leiksýninga hérlendis og erlendis og fengist við leiklistarkennslu og þjálfun leikara víða í Evrópu. Rúnar var fyrsti prófessor í leiktúlkun við Listaháskóla íslands. Hann hefur rekið leiksmiðjuna Lab Loka frá árinu 1992 og stjórnað þjálfun hópsins og stýrt flestum verkefnum hérlendis og erlendis. Rúnar hefur auk þess fengist við ýmis konar tilraunastarfsemi á vettvangi kvikmynda og gjörningalistar, m.a. unnið með heimilislausum í Heimilislausa leikhúsinu EHTOS sem hann stofnsetti ásamt fleirum árið 2015.

Valgerður H. Bjarnadóttir útskrifaðist árið 1980 sem félagsráðgjafi frá Socialhögskolan í Bærum í Noregi og lauk árið 1996 BA gráðu í heildrænum fræðum frá California Intstitute of Integral Studies í San Fransisco með áherslu á draumafræði og síðar með MA gráðu frá sama skóla í femínískri trúarheimspeki (Women´s Spirituality) þar sem hún lagði áherslu á að finna tengsl úr íslenska sagnaarfinum við kynímyndir og trúarminni frá öðrum menningarheimum. Valgerður starfaði í áratugi á opinberum vettvangi stjórnmála og stjórnsýslu, einkum að málefnum kvenna og jafnrétti kynjanna. Hún hefur tvívegis setið í bæjarstjórn á Akureyri, var jafnréttis- og fræðslufulltrúi bæjarins og átti frumkvæði að stofnun Menntasmiðjunnar á Akureyri enda áhugasöm um þróun óhefðbundinni aðferða í fullorðinsfræðslu. Valgerður hefur í áraraðir þróað og kennt ásamt Karólínu Stefánsdóttur námskeiðið Lífsvefurinn.  Síðastliðinn áratug hefur Valgerður starfað við ráðgjöf, verkefnastjórn, ritstörf og kennslu hérlendis og erlendis hjá fyrirtæki sínu, Vanadís.

Skráning: oli@mh.is

 

 

 

 

 


Hvenær?
Date(s) - 12.8.2019 - 14.8.2019
All Day

Scroll to top