Skapandi skrif – ferð hetjunnar

SKAPANDI SKRIF – FERÐ HETJUNNAR

Ferð hetjunnar er námskeið í skapandi skrifum ætlað þeim sem langar að skrifa sögu en jafnframt læra um hugmynda- og aðferðafræði hetjuferðarinnar (The Hero’s Journey)

The Hero´s Journey (ferð hetjunnar) er þekkt hugtak í frásagna- og goðsagnafræðum. Margir fræða- og listamenn hafa skoðað og þróað þá hugmynd að flestar sögur heims, jafnt fornar goðsagnir sem bækur og kvikmyndir nútímans, en ekki síst lífssögur allra manna, fjalli um hetju sem stígur inn í heim ævintýrisins, mætir ögrunum og hindrunum, deyr táknrænum dauða en endurfæðist, vinnur sigra, öðlast gjafir og snýr sem umbreytt manneskja aftur til fyrri veruleika. Ferð hetjunnar er í senn leið til að skrifa skáldskap og ferð um innri lendur höfundarins. 

Námskeiðið er haldið í ReykjavíkurAkademíunni (Bókasafni Dagsbrúnar á 4. hæð), Þórunnartúni 2, 105 Reykjavík kl. fös. 15. nóv. kl. 18:00-22:00, lau. 16. nóv. kl. 10:00-14:00 og sun. 17. nóv. kl. 10:00-14:00. (3×4 klst., 12 klst. alls)

Verð: 35.000 kr. Flest stéttarfélag niðurgreiða námskeiðið, athugaðu með þitt.

Leiðbeinandi er Björg Árnadóttir sem tekið hefur þátt í sex þjóða Evrópusamstarfi um hetjuferðina sem frásagnaraðferð.

Ummæli um Ferð hetjunnar

FERÐ HETJUNNAR: THE HERO’S JOURNEY

Bandaríski bókmenntafræðingurinn Joseph Campbell (1904-1987) er þekktastur þeirra sem rannsakað hafa ferð hetjunnar en bók hans The Hero with A Thousand Faces (1949) fjallar um hetjuna í goðsögum heims. Vinur hans, leikhúsmaðurinn Paul Rebilliot (1931-2010) þróaði heildræna aðferð til að vinna á skapandi hátt með ferð hetjunnar og handritshöfundurinn Christopher Vogler (1949) hefur skoðað ferð hetjunnar í skáldsögum og kvikmyndum og skrifað bókina Ferð höfundarins.

Á námskeiðinu er stuðst við hugmyndir og aðferðir ofangreindra fræði- og listamanna en námskeiðið er að öðru leyti aðlagað þörfum hópsins hverju sinni. Þótt um sé að ræða ritlistarnámskeið snýst það að miklu leyti um ferð hetjunnar innra með hverjum þátttakanda. Ekki þarf að koma á námskeiðið með fastmótaðar hugmyndir um umfjöllunarefni heldur fæðist efnið í hugmyndavinnunni.

KENNSLUÁÆTLUN

Ritsmiðja 1: HEIMUR HINS ÞEKKTA  (fös. 15. nóv. kl. 18:00-22:00). Hrist er upp í hópnum og heilasellunum með upphitunaræfingum sem tengjast hetjuferðinni. Byrjað að skrifa stutta texta og þeim deilt í hópnum. Fyrsta ritsmiðjan fjallar um söguhetjuna í daglegu umhverfi hennar áður en hún heyrir og hlýðir kallinu sem hvetur hana til breytinga. Hver er hetjan, hvernig er daglegt líf hennar, hvert er kallið sem hún heyrir og hvað stendur í vegi fyrir að hún hlýði kalli til breytinga?

Ritsmiðja 2: HEIMUR HINS ÓÞEKKTA (lau. 16. nóv. kl. 10:00-14:00). Fjallað er um hvað hindrar hetjuna frá því að stíga inn í heim ævintýrisins. Hún berst gegn hindrunum og vinnur sigra sem opna henni leið inn í óþekktan heim þar sem ævintýrin gerast. Skrifað er um farartálmana, um  ævintýraheiminn sem opnast, ögranir og hindranir sem þar mæta hetjunni og um þá atburði sem verða hápunktur frásagnarinnar.

Ritsmiðja 3: ENDURKOMAN (sun. 17. nóv. kl. 10:00-14:00). Fjallað er um ferð hetjunnar tilbaka til fyrri veruleika og endurkomu hennar í land hins þekkta með þá gjöf sem hún hefur þegið. Skrifuð er saga byggð á textum sem orðið hafa til þessu á ferðalagi hetjunnar. Sögunum er deilt í hópnum og rætt um efnivið þeirra og efnistök.

KENNSLUMARKMIÐ

  • að þátttakendur skrifi sögu eða frásögn sem innblásin er af hetjuferðinni
  • að þátttakendur skoði ferð hetjunnar innra með sér
  • að þátttakendur öðlist aukna færni við ritun skáldskapar
  • að þátttakendum finnist þeir hafa eflst og styrkst að námskeiði loknu.
  • að lesupplifun dýpki.

SKRÁNING OG GREIÐSLUUPPLÝSINGAR

Athugaðu að sætið er ekki tryggt fyrr en greitt hefur verið fyrir það, 45.000 kr.,  á reikningsnúmer Stílvopnsins: 0133-26-580815, kennitala: 580815-1380

eða með greiðslukorti

Greiðslukvittanir eru afhentar í upphafi námskeiðs en fyrr ef þátttakandi óskar.

 


Hvenær?
Date(s) - 15.11.2019 - 17.11.2019
18:00 - 14:00

Hvar?
ReykjavíkurAkademíunni (Bókasafni Dagsbrúnar 4. hæð)

Skráning

Bookings are closed for this event.

Scroll to top