SÓLSKINS- OG SORGARSÖGUR ÚR FERÐAÞJÓNUSTUNNI

Björg Árnadóttir/Kjarninn

Sólin stendur vakt á heiðbláum himni nótt sem nýtan dag. Hitinn fer hvað eftir annað upp fyrir tuttugu gráður. Þannig viðrar oft á sumrin norður í Mývatnssveit. Göngumóðir túristar undrast hlýjan sunnanblæinn þótt sumir trúi ekki skynjun sinni og hafi enn lopahúfur á höfði þegar hitinn er kominn yfir tuttugu og fimm stig. Hér skal þó viðurkennt með smærra letri að fyrir kemur að norðlægar áttir séu ríkjandi í Mývatnssveit. Mér er til dæmis síðasta sumar í fersku minni.

Erillinn utan við Samkaup í Reykjahlíð minnir á iðandi mannlíf á erlendum torgum. Biðröð er við búðina og vinsæl klósettin bak við hana. Ævintýralega útbúin farartæki standa í röðum á hlaðinu, þar stoppar líka gulur strætó og SBA-rútur sem á sumrin ganga til Akureyrar, Húsavíkur, Ásbyrgis og Egilsstaða. Flugvélar flögra yfir, þétt setnar útlendingum á leið í útsýnisflug til allra átta. Hér kjósa puttalingar að bíða eftir fari á næsta áfangastað og fólk lagar mat á prímusum eða skiptir við pylsusalann sem einnig býður íslenska kjötsúpu. Ferðaskrifstofur heimsfólks og heimafólks pikka upp farþega í kynnisferðir til þekktra og óþekktra náttúruundra þessarar einstöku sveitar og auðvitað kalla óbyggðirnar, stærsta ósnortna svæði Evrópu. Á bílastæðinu við Samkaup hljóma helstu heimstungur en líka margvísleg afbrigði íslenskrar tungu vegna þess að ferðaþjónustan færir okkur margan góðan manninn sem ákveður að gerast Íslendingur.

Það vantar ekki fjörið í Mývatnssveit á sumrin. Maður veifar sveitungum en enginn hefur tök á að stoppa og spjalla yfir hábjargræðistímann enda allir á tólf tíma vöktum og sumir á eins mörgum tólf tíma vöktum og hægt er að koma fyrir á einum sólarhring. Stöku útför er það eina sem sameinar innfædda. Stemmingin, uppfull af adrenalíni, minnir mig á sumrin mín í frystihúsum forðum. Þegar unnið er á næturvinnutaxta verða allir svo upprifnir við að bjarga verðmætum að öll þreyta gleymist.

Um mannaskít og fleira

Gamla Kaupfélagshúsið stendur við suðvesturenda bílastæðisins. Það hýsir nú móttökur og agnarsmáar skrifstofur Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs og upplýsingamiðstöðvarinnar Mývatnsstofu. Hingað koma hvern sumardag þúsundir ferðamanna til að fræðast um allt sem fyrir augu ber á þessum framandi stað. Auk þess að uppfræða fólk hafa stofnanirnar þrjár, ásamt Rannsóknarmiðstöðinni við Mývatn, margvíslegum náttúruverndarhlutverkum að gegna. Hvarvetna í heiminum skal aðgát höfð í nærveru Móður jarðar en sérstaklega á stöðum eins og Mývatni. Vatnasvið Mývatns og Laxár eiga sér enga hliðstæðu í veröldinni enda nýtur svæðið verndar með lögum og alþjóðasamningum. Slæm umgengni við vatnasvæði Mývatns hefur til að mynda áhrif á fuglalíf um allan heim.

Til eru ferðamenn sem sýna einbeittan brotavilja í níðingsskap sínum gegn náttúrunni en flestir skilja hve viðkvæm íslensk náttúra er – ef þeim er sagt það. Erlendir ferðamenn skilja ekki íslenska náttúru, vegi og veðurfar nema þeim sé hjálpað til þess. Landverðir eru sú stétt sem er í einna nánustum tengslum við fólk sem ferðast á eigin vegum. Mér þótti það merkileg ákvörðun stjórnvalda hér um árið að mæta auknum ferðamannastraumi með niðurskurði í landvörslu. Norður í Mývatnssveit fæ ég ekki betur séð en að æ færri landverðir noti æ meira af tíma sínum til að tína upp mannaskít í náttúruperlum. Sífellt minni tími virðist gefast til að fræða ferðamenn um ákjósanlega umgengni við einstakt lífríki Mývatns.

Afkoma og áhyggjur innfæddra

Fjalladrottning, móðir mín, breiðir út faðminn. Fegurðin er hvítblá, orkan djúpfryst. Frostrósir prýða glugga og nær hnöttóttur, gylltur máni hverfur af himni yfir Hverfjalli þegar keyrt er inn í gufuna sem leggur af Helgavogi. Lágreist býli kúra í snjónum sunnan vatns og bjarkir sýnast silfraðar í flóðlýsingunni við Skútustaðakirkju. Uppúr þríhyrndu Belgjarfjalli standa skærgræn norðurljós eins og strókur.

Ferðamenn eru líka teknir að flykkjast í Mývatnssveit til að líta fegurð vetrarins. Þegar ég skrapp norður um daginn undraðist ég iðandi mannlífið í febrúar en minntist um leið fábreytts félagslífsins þegar ég bjó þarna fyrir um tuttugu árum. Ef miðill kom í sveitina mætti ég á skyggnilýsingu bara til að hafa eitthvað við að vera á síðkvöldum.

Nú geta margir gisti- og veitingastaðanna, sem bráðum fylla annan tuginn, haft opið yfir veturinn. Hér eru engir alþjóðlegir skyndibitastaðir en sumir veitingastaðanna eru í þeim gæðaflokki að ítalskir sælkerar hringja í hrifningu heim þegar klukkan er komin yfir miðnætti við Miðjarðarhafið til að lýsa því sem þeir eru að borða. Þegar ég kom um daginn voru hótelin að fyllast af vöðvafjöllum sem vinna við að undirbúa ísinn fyrir tökur á Fast and the furious. Vetraríþróttir blómstra við vatnið. Lókal leiðsögumenn brjótast með gesti í Lofthelli þrátt fyrir erfitt aðgengi að staðnum í vetrarham. Ekkert lát er á aðsókn í sí stækkandi Jarðböðin. Bændafjölskylda hefur viðurværi af því að sýna flottasta fuglasafn landsins. Hveraseydda rúgbrauðið rýkur út og lopapeysur eru tíndar af prjónum Dyngjukvenna áður en þær ná að fella af. Ferðaþjónustubændur eru margir farnir að geta sinnt rekstrinum árið um kring og  borgað niður skuldir frá uppbyggingarárunum.

Ég átti um daginn erindi við fjölmörg ferðaþjónustufyrirtæki og var alls staðar boðið í kaffi enda gefst ennþá tími yfir veturinn til að spjalla. Það sló mig hvað hljóðið var slæmt í fólki. Hún kom mér svolítið á óvart sú þörf að deila með mér áhyggjum af þróun mála í Mývatnssveit mitt í allri peningalyktinni.

Ég veit ekki hvort gerðar hafa verið rannsóknir á Mývatnssveit sem ferðamannastað en tel að þessi landfræðilega afmarkaða sveit og gamalgróna samfélag væru kjörin til að kortleggja áhrif ferðamennsku á náttúru og mannlíf. Ferðaþjónustan er iðnaður sem eins og sprettur af sjálfum sér og ekkert er umhverfismatið. Hér að framan hef ég nefnt margvísleg jákvæð áhrif. Þegar Kísiliðjunni var lokað árið 2004 sáu menn jafnvel fram á að sveitin legðist í eyði og það sama hafði fólk óttast á sjöunda áratug síðustu aldar þegar tæknivæðing búskaparhátta hafði minnkað atvinnumöguleika í sveit þar sem blómlegur búskapur hefur verið stundaður frá landnámsöld. Mývatnssveit virðist hafa hæfileika kattarins til að koma niður á fótunum. En þrátt fyrir – eða kannski vegna – uppgangsins í hinni nýju atvinnugrein eru heimamenn farnir að hnykla brýn og viðra áhyggjur.

Samtal úr upplýsingamiðstöð

– Hvar er Þjóðvegur 1 til Egilsstaða? spyr ferðamaður sem kemur í Mývatnsstofu í þriðja skipti á jafnmörgum dögum til að spyrja sömu spurningar.

– Bara hérna rétt fyrir utan, það er vegurinn sem liggur þarna í austurátt, svara ég en ég hef síðustu þrjú sumur unnið við ferðaþjónustu í Mývatnssveit.

– Hvað þýðir austur?

– Það er þessi átt, segi ég og bendi að Námaskarði.

– Hvernig get ég verið viss um að þetta sé rétta leiðin til Egilsstaða?

– Þú fylgir þessum vegi í tvo klukkutíma og þá kemurðu að skilti sem á stendur Egilsstaðir.

– En hvað geri ég ef það er ekki svoleiðis?

– Ég get fullvissað þig um að þannig er það en ég get líka látið þig fá símanúmer til að hringja í ef þú lendir í vandræðum.

– En ég vil fá að vita um annan veg til Egilsstaða ef þú skyldir vera að vísa mér á rangan veg.

– Það er enginn annar þjóðvegur til Egilsstaða héðan.

– Ég ætla samt að fara á aðra upplýsingamiðstöð og fá second opinion, segir hann eins og í boði sé geysilegur fjöldi upplýsingamiðstöðva í grennd. Hann snarast út, næstum í fangið á öðrum ferðamanni. Sá hampar bílaleigulyklum að slyddujeppa. Hann spyr um aðstæður á leiðinni til Öskju en reiðist þegar ég segi að F-88 í Öskju sé því miður ófær.

– Hvernig geturðu haldið öðru eins fram, sérðu ekki að það er glampandi sól og hiti, þvílíkur skortur á fagmennsku, ég fer bara samt, segir hann og er lagður af stað án þess að ég nái að útskýra að sólbráð og leysingar loka stundum veginum í Öskju og Herðabreiðarlindir á sumrin.

Þetta eru öfgakennd dæmi en sönn. Flestir koma samt í upplýsingamiðstöð til að fá greinargóðar upplýsingar og fara eftir þeim. En árin sem ég hef verið viðloðandi ferðamennsku í Mývatnssveit hafa sýnt mér að þörfin fyrir upplýsingagjöf verður því brýnni sem ferðamenn koma víðar að.

Það skal upplýst að fyrri ferðamaðurinn í sögu minni var Kínverji. Þegar við ferðumst til Kína er settur undir hvert okkar leiðsögumaður til að koma í veg fyrir að við lendum í vandræðum. Við höfum ekki mannafla til að þjóna á sama hátt þeim stóra hópi Kínverja af millistétt sem nú flæða á eigin vegum yfir Evrópu. Þegar ég stend fyrir framan Kínverja sem er búinn að missa af einu rútu dagsins og þar með af bókaðri gistingu það sem eftir er ferðarinnar get ég ekki annað en vorkennt honum. Það eina sem ég get ráðlagt honum að gera sér til dundurs er að ganga um í náttúrunni, manni sem aldrei hefur þurft að ganga og óttast hrjúfa náttúru okkar. Í rauninni hefur hann ekki hugmynd um af hverju hann er lentur á þessum stað sem allt eins gæti verið tunglið. Ég get líka upplýst hér að það er ekki einsdæmi að menn keyri til Siglufjarðar í leit að Laugavegi. Það gerist ítrekað að fólk komi í Voga í Mývatnssveit með bókaða gistingu í Vogum á Vatnsleysuströnd.

Mannaþefur í helli mínum

Ég held að lokun sundlaugarinnar í Reykjahlíð hafi orðið til þess að fólk tók að spjalla við mig um vanda byggðarlagsins. Sveitarfélagið hefur ekki lengur efni á að viðhalda og reka sundlaug fyrir heimamenn og sundkennslu barnanna. Félagsheimilið Skjólbrekka er í útleigu og heimamenn þurfa að leigja það til baka fyrir hefðbundnar samkomur sínar. Hreppurinn hefur litlar tekjur af blómstrandi ferðamennsku en samt eru gerðar kröfur til hans um að merkja staði, reisa bílastæði og reka salerni. Skútustaðahreppur er eitt víðáttumesta sveitarfélag landsins en jafnframt eitt af þeim fámennustu. Hreppurinn innheimtir lítil aðstöðugjöld vegna ferðamanna, það gera aðilar búsettir annars staðar. Störfin sem sveitin skapar eru margfalt fleiri en íbúar hennar svo að útsvarstekjur íslensks farandverkafólks í ferðaþjónustu  renna til annarra sveitarfélaga. Ég verð að viðurkenna vanþekkingu mína á því hvert útsvarstekjur renna vegna erlends vinnuafls sem kemur tímabundið á vegum starfsmannaleigna.

Sveitarfélag sem hefur ríkum skyldum að gegna gagnvart fuglalífi alls heimsins getur ekki byggt endalaust af húsum. Strangt eftirlit er með nýbyggingum og erfitt að fá leyfi fyrir þeim. Ný hótel eru á teikniborðinu en óvíst hvar starfsfólkið á að búa. Hver kompa í sveitinni er upptekin, hvert dúkkurúm. Fólk sem áður bjó í einbýlishúsum býr nú í afstúkuðu horni í bílskúrnum. Það kostar klukkutíma bið að kaupa mjólkurpott og þegar heim er komið er mannaskítur í innkeyrslunni og ókunnur maður á gægjum við eldhúsgluggann. Björgunarsveitarmenn er á endalausri bakvakt til viðbótar við aðrar vaktir og það kemur niður á heilsu þeirra og pyngju vinnuveitanda. Sérfræðingar að sunnan óskapast yfir prísunum og meintri græðgi Mývetninga þegar þeir setjast yfir stefnumótunarvinnu, ef til vill um það hvernig auka megi arð í ferðaþjónustu.

Frá mínum bæjardyrum séð

Ég settist ekki niður að skrifa þessa grein til að kenna einhverjum um það sem aflaga virðist fara. Ekki heldur af því að ég hafi lausnir á hraðbergi. Eiginlega byrjaði ég að skrifa greinina af einskærri eigingirni vegna þess að mér líður eins og áhugaverðu andliti lands og þjóðar sem langar meira að vinna í upplýsingamiðstöð en að fara í forsetaframboð. Ég hef allt í starfið, þekkingu, reynslu, tungumál og samskiptahæfni. Ég hef bara ekki efni á að vinna við upplýsingagjöf. Í fyrrasumar ákvað ég að skúra frekar og skera ávexti á næturvöktum á veitingastað. Það var unaðslegt að fá að fylgjast með nýbornu ungviði í bjartri nóttinni á meðan ég skúraði og skar ávexti í góðri sátt við laun mín. Málið er bara að ég hef enga sérstaka hæfileika til að skúra og margir eru betri í því en ég. Ég hef hæfileika til að aðstoða og fræða – og ég tel að upplýsingagjöf sé skaðaminnkandi forvarnarstarf sem sparar íslensku samfélagi fúlgur á degi hverjum.

Nú hefur verið stofnuð Stjórnstöð ferðamála og er það vel að kallað sé eftir reynslu og þekkingu á sviðinu til ,,að samhæfa aðgerðir og útfæra leiðir í samvinnu við stjórnsýslu, sveitarfélög, stoðkerfi greinarinnar vítt og breitt um landið, greinina sjálfa og aðra hagsmunaaðila.“ Ég hef mikla reynslu af því að stjórna starfshópum. Ég gef hér með kost á mér til að stofna og stýra hópi fólks sem vinnur á gólfi atvinnugreininnar og hefur af mikilli reynslu að miðla. Ég hef einkum áhuga á að vinna að auknu vægi fræðslu og upplýsingagjafar í íslenskum ferðamálum, landi og þjóð til hagbóta og sóma.

 

 

 

Scroll to top