Tilboð til sveitarfélaga

Námskeið Stílvopnsins í skapandi skrifum og ritun endurminninga henta vel á bæjarhátíðum og einnig sem helgarnámskeið í sveitarfélögum landsins.

Þá eru í boði ritlistarnámskeið fyrir kennara sem eru í senn kennslufræðilegs eðlis og innblástur fyrir eigin skrif kennaranna.

Einnig býður Stílvopnið smiðjur í félagsörvun sem örva samskipti og liðsheild.

Að lokum býður Stílvopnið einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum ráðgjöf um ritun og útgáfu.

Ráðgjafi og kennari á námskeiðum er Björg Árnadóttir, rithöfundur, blaðamaður og MA í menntunarfræðum.

Andrea Ævarsdóttir forstöðumaður Bókasafn Grindavíkur: Ég sótti námskeið í skapandi skrifum hjá Björgu af tveimur ástæðum: Annars vegar sem bókasafnskennari, þar sem mig vantar alltaf hugmyndir að efni til að vinna með í bókasafnstímum á miðstigi grunnskólans og hins vegar vegna þess að ég hef gengið með þann draum í huganum að skrifa smásögur fyrir unglinga, en skorti áræðni til að hefjast handa. Ég lærði margt á námskeiðinu sem nýtist mér í báðum þessum tilfellum og get með sanni sagt að ég hef nú þegar komið nokkrum hugmyndum frá Björgu inn í bókasafnskennslu 4.-6. bekkjar og hef lokið við eina örsögu sem vindur vonandi upp á sig og verður að smásögu einhvern daginn. Námskeiðið hentar vel fyrir breiðan hóp fólks, þar sem allir fá að leggja sitt af mörkum, ólíkar raddir og skoðanir fá að heyrast og það þvingar mann til að hugsa út fyrir kassann og sinn reynsluheim. Þetta er námskeið sem er vel þess virði að bjóða upp á fyrir starfsmenn sveitarfélaga, þeim til vaxtar og þroska innan og utan vinnutíma.

FLEIRI UMSAGNIR UM NÁMSKEIÐ STÍLVOPNSINS

NÁNARI UPPLÝSINGAR UM NÁMSKEIÐ OG RÁÐGJÖF

Lýsingar á námskeiðum og félagsörvun

Kennslufræði ritunar (2-8 klst.): Kynntar eru aðferðir til að hvetja nemendur til að byrja, halda þeim við efnið og fá þá til að birta skrif sín. Rætt um námskrármarkmið ritunarkennslu og óskir og þarfir  nemenda og samfélags. Námskeiðið getur verið allt frá tveggja stunda fyrirlestri til heils vinnudags þar sem þátttakendur fá sjálfir að spreyta sig á að skrifa. Hentar vel á starfsdögum í skólum.

Skapandi skrif (3×4, klst., alls 12 klst.): Skrifuð er smásaga og notaðar til þess margvíslegar kveikjur og aðferðir til að koma fólki af stað við skrifin. Fjallað um persónusköpun, söguþráð og framvindu og þessir þættir æfðir. Þátttakendur venjast því að birta skrif sín öðrum enda deila þeir textum sínum hver með öðrum í því skyni að læra af hinum.

Endurminningaskrif (alls 12-16 klst.): Skrifað er um eigin endurminningar og annarra. Margvíslegar kveikjur notaðar til að vekja endurminningar og örva skrif. Fjallað um dagbækur, minningagreinar og æviminningar hvers konar og margvíslegar ritunaraðferðir kynntar. Þátttakendur venjast því að birta skrif sín öðrum enda deila þeir textum sínum hver með öðrum í því skyni að læra af hinum. Skrafað er um fortíð og nútíð eftir því sem textarnir gefa tilefni til.

Félagsörvun (2-8 klst.): Félagsörvun er árangursrík aðferð til að skapa öfluga liðsheild. Félagsörvun Stílvopnsins hentar skólum, stofnunum, vinnustöðum og stjórnendum. Notaðar eru félagsörvunaraðferðir Jacob L. Moreno, brautryðjanda á sviði hópmeðferðar og notkunar leiklistar í meðferðarskyni. Unnið er með dagleg viðfangsefni hópa, markmið þeirra og gildi á léttan en áleitinn hátt.

Kristín Baldursdóttur (Innri Endurskoðun Landsbankans): ,,Félagsörvunarnámskeið sem Björg Árnadóttir hélt fyrir starfsmenn Innri endurskoðunar Landsbankans var til þess fallið að tengja liðsmenn, sýna á þeim nýjar og óþekktar hliðar, ýta undir samskipti og efla traust. Námskeiðið var frumlegt og reyndi á skapandi eiginleika liðsmanna. Hópurinn, sem hefur margoft fengið til liðs við sig leikara, markþjálfa og aðra samskiptasnillinga, hafði á orði að vinnan með Björgu hefði verið sú skemmtilegasta sem þau hefðu tekið þátt í með það að markmiði að efla liðsheild hópsins. Þegar frá leið var ljóst að samskipti liðsmanna urðu persónulegri, ágreiningsmál voru rædd af ákafa og hispursleysi en án eftirmála og meiri gleði ríkti í daglegum samskiptum hópsins.”

 

Scroll to top