Um leiðbeinandann

Þekking á viðfangsefninu og reynsla af heilandi kennsluháttum

Björg Árnadóttir (f. 1957) hefur menntun á sviði lista og fjörutíu ára kennslureynslu sem myndlista-, ritlistar- og tjáningarkennari auk þess sem hún stjórnaði menntastofnunum í tíu ár. Frá árinu 1985 hefur hún kennt berskjölduðum og jaðarsettum hópum hérlendis og erlendis skapandi greinar í valdeflandi tilgangi. Björg hefur M Ed gráðu í menntun fullorðinna og hefur stjórnað mótun félagslegrar menntastefnu, meðal annars í forsvari fyrir símenntunarmiðstöðvar á landsbyggðinni og Námsflokka Reykjavíkur.

Frá árinu 2010 hefur Björg tekið þátt í tíu Evrópuverkefnum um skapandi og valdeflandi vinnu með jaðarsettum, oftast með Divadlo bez domova, leikhúsi heimilislausra í Bratislava. Sú samvinna leiddi meðal annars til þátttöku hennar í Evrópuverkefninu HIT – Heroes of Inclusion and Transformation en þar prófuðu þátttakendur frá sex löndum að beita hinni svokölluðu hetjuferðarþjálfun í tilfinningarvinnu með jaðarsettu fólki. Björg skrifaði auk þess einn kaflanna í bók sem byggir á niðurstöðum verkefnisins. HIT-verkefnið var valið af EPALE, vefgátt fullorðinsfræðslu í Evrópu, sem eitt tuttugu og átta afburðaverkefna ársins 2019.

Hugmyndin um hetjuferðina á engan höfund en er talin hafa orðið til um leið og mannkyn fór að segja sögur. Það var hins vegar bandaríski goðsagnafræðingurinn Joseph Campbell sem fyrstur setti fram þá kenningu að allar sögur heims hefðu sama grunnþráð (the monomyth, frumgoðsögnina eða The Hero´s Journey, hetjuferðina):

Í sínum þekkta heimi heyrir hetjan kall til breytinga, hlýðir kallinu, stígur inn í heim ævintýris þar sem umbreytingin hennar hefst. Hún mætir ögrunum og hindrunum í landi hins óþekkta, gengur í gegnum eldskírn, tekst á við ferli friðþægingar og öðlast gjöf sem hún tekur með sér aftur inn í sinn þekkta heim og gagnast samfélagi hennar öllu.

Námskeiðið Bataferð hetjunnar byggir á hetjuferðarþjálfun bandaríska leikarans Paul Rebillot þar sem þátttakendur eru leiddir í gegnum heilandi hetjuferðarferli. Björg aðlagar aðferðir Rebillot að eigin kennslureynslu en speglar þær auk þess í hugmyndum hinnar þekktu tólfsporaaðferð til bata sem hún sjálf hefur áratuga reynslu af. Ef grannt er skoðað sést að þroskahringur sporanna tólf er mjög sambærilegur þroskahring hetjuferðarinnar.

Engin eiginleg sporavinna fer þó fram og þátttakendur þurfa hvorki að þekkja til hetjuferðarinnar né tólfsporaaðferðarinnar heldur einungis að vera tilbúnir að nota sköpunarhæfnina í heilandi vinnu með hópi annarra.

 

Scroll to top