Interrail

Skrifað með öllum skilningarvitum á Gotlandi. Ferðaskrif Bjargar #9

Ég vaknaði löngu á undan öðrum, fór fram að pakka í pokann en hrökk við þegar upp úr fatahrúgu á sófanum reis ung kona sem bauð mér ,,goddag”. Svo sagði hún í óspurðum fréttum að þeir hefðu komið í nótt.
– Þeir komu um fjögurleytið og settu rosaleg þyngsli yfir höfuðið á mér og alveg ofan í maga.
– Svafstu hér í nótt? spurði ég sakbitin yfir að vekja hana þótt matsalurinn sé nú einu sinni almannarými á farfuglaheimilum.
– Það var ekkert annað laust, svaraði hún og tók að tína af sér spjarirnar sem hún hafði breitt yfir sig.
– Skríddu í kojuna mína, bauð ég henni um leið og ég spennti á mig grænan bakpokann.
-Tack snälla, en ég er nú ekki í neinni svefnskuld, er búin að lifa á lúxushótelum síðustu daga, svaraði hún og ég sá að flíkur hennar voru í fínni kantinum. Ég fylgdist með henni um stund standa og strjúka á sér kviðinn þar til hún kom og lagði hönd mína líka á kvið sér.
-Finndu hvað ég er uppþembd, sagði hún en leit svo í kringum sig áður en hún lækkaði róminn.
– Ég veit alveg hvað þeir eru að gera. Þeir setja orma í kviðinn á konum til að við blásum út. Og nú hafa þeir náð mér.

Samhengi hlutanna

Þá skildi ég að gluggalausa hostelið í kjallara rétt við Sveavägen er eitt þeirra hostela þar sem fólk dvelur lengi vegna krefjandi persónulegra aðstæðna. Ég valdi hins vegar hostelið á netinu vegna verðsins og staðsetningarinnar. Wasastan þekki ég borgarhluta best í Stokkhólmi og þar sem ég stoppaði bara yfir blánóttina vildi ég vera þar sem ég vissi að ég rataði út á flugvöll. Og nóttin kostaði ekki nema 1703 kr. á gengi dagsins sem er eins og gisting gerist ódýrust suður á Balkanskaga. Annars staðar hef ég greitt þrjú til fimm þúsund kall fyrir gistingu. Enginn þarf að láta verð á gistingu aftra sér frá flakki um Evrópu.

Sumarið ´75 vann ég á hosteli í Osló þar sem bjuggu farandsverkamenn frá Tyrklandi og Pakistan, karlmenn sem dvöldu langdvölum fjarri fjölskyldum sínum og umvöfðu með umhyggju sautján ára þrifastelpuna sem nennti að tala við þá. Þegar ég skrifa þetta rennur upp fyrir mér að þarna hefur áhugi minn á margbreytileika mannlífsins vaknað.


Horft til hafs á Gotlandi

Óvænt gjöf frá dulvitundinni eru minningarbrotin sem í sumar birst hafa mér við ólíklegustu aðstæður. Mér finnst ég ferðast í gegnum líf mitt og sjá samhengi hlutanna. Nú rennur til dæmis upp fyrir mér samhengið milli alls sem ég gerði sumarið sem ég var sautján; um vorið bjó ég í Ástralíu en svo var verbúðin á Þingeyri kölluð vegna uppruna flesta íbúanna, í júní og júlí var ég við þrif meðal langt aðkominna farandverkamanna og fór svo í lesta- og puttaferðalag um Evrópu með kærastanum. Þetta var sumarið sem opnaði mér áhuga á fjölbreytileikanum. Ég kom breytt heim eins og ég mun gera nú, fjörutíu og átta árum síðar.

Út úr dúr í norður

En hvers vegna tók ég þennan langa krók frá Mið-Evrópu upp til Svíþjóðar fyrst ég var á leið til Spánar?  Það var vegna þess að ég var fyrir löngu búin að skrá mig á ritlistarnámskeið á Gotlandi í júlílok. Svíþjóðardvölin átti að vera endapunktur ferðarinnar en svo stakk sumarleigjandinn minn upp á að ég dveldi allan ágústmánuð í íbúð hans í Valenciu. Þar sit ég nú og skrifa um Svíþjóð sem ég yfirgaf fyrir tíu dögum síðan.


Textarýni meðal trjánna  

Ég ákvað að fljúga þar sem fimmtíu tíma ferð með fimmtán lestarskiptum óx mér í augum. Ástæða þess að ég lagði svo snemma af stað til Arlanda-flugvallar var hins vegar sú að í tvær vikur hafði vélmenni tilkynnt mér reglulega að flugbókun mín væri ekki gild þótt hún væri greidd. Á flugvellinum hitti ég loks lifandi veru sem tryggði mér sæti með RyanAir og kenndi mér þá mikilvægu lexíu að bóka aldrei flug í gegnum bókunarsíðu. Til Valensíu komst ég gegn aukagjaldi.

Eyjan Gotland á Eystrasalti

Gotland er stærsta eyja Svíþjóðar með sína áttahundruð kílómetra strandlengju en íbúar eru aðeins um sextíu þúsund. Vegna náttúrufegurðar og ríkrar sögu er Gotland vinsælasti ferðamannastaður Svía þótt mínum íslensku augum finnst fjöldi ferðamanna ekki umtalsverður.


Litlu, litskrúðugu húsin á milli virkisveggjanna í  Visby eru algör draumur

Allt er svo létt og ljóst á Gotlandi

Mikið þótti mér notalegt að koma aftur til landsins góða sem fóstraði mig í sex ár á níunda áratugnum og sjá hversu litlar breytingar hafa orðið í konungsríkinu Svíþjóð. Miðað við fjölmiðlaumfjöllun var ég farin að halda að sænskt samfélag væri gjörbreytt til hins verra. Enn svífa gildi tillitssemi og samvinnu yfir og allt um kring sem birtist til dæmis hjá dómkirkjuprestinum sem ég sá sitja í kirkjunni sinni á laugardagskvöldi að tala við fólk í neyð og bílstjóranum sem ók ferjurútunni á milli Nynäshamn og Stokkhólms. Í rútunni var ekki gert ráð fyrir nokkrum túrista og bílstjórinn talaði afar persónulega við okkur farþega sína.
– Lítið nú upp úr símunum og sjáið fallegu borgina okkar, sagði hún þegar Stokkhólmur blasti við í allri sinni dýrð og á City Centralen kvaddi hún okkur með orðunum:
– Passið mjög vel að skilja ekkert rusl eftir í rútunni og skoðið tvisvar hvort þið hafið gleymt nokkru.
– Já, mamma, tautaði ég og datt í hug að ráða hana sem persónulegan aðstoðarmann þótt ég þurfi reyndar varla pössun lengur af því ég hef ekki týnt einum einasta hlut í allri ferðinni. Líklega er best að búa í bakpoka til að henda reiður á eigum sínum.

Vatnsskortur og fornminjar

Nær allar borgir sem ég hef heimsótt í sumar eru umkringdar virkisveggjuma sem segir margt um sögu álfunnar okkar. Gotland lá náttúrlega vel við höggi og múrinn í Visby er best varðveitti borgarmúr Skandinavíu og einn fimmtán staða í Svíþjóð á Heimsminjaskrá Unesco.

Hafist var handa við byggingu fimm til sex kílómetra múrs árið 1270 en eftir stendur tæplega þrír og hálfur kílómetri. Reyndar finnast hér fornminjar hvar sem stungið er niður skóflu og á lýðháskólanum í Hems, þar sem ég var á ritlistarnámskeiðinu, var stór hópur áhugafólks um fornminjafræði alls staðar að úr heiminum að aðstoða sveitarfélagið við uppgröft.

Sumir koma líka í pílagrímsferðir til Gotlands vegna búsetu frægra Svía hér, ég nefni bara Ingmar Bergman, Línu Langsokk og Loreen. Bergman bjó lengi á litlu eyjunni Fårö og Villa Villekulla (Sjónarhóll) hennar Pippi er nálægt Visby. Íslandsvinurinn og Eurovision-stjarnan Loreen býr á Norður-Gotlandi og mér hefur dottið í hug að stinga upp á íbúðaskiptum við hana.


Victoria, nýjan vinkonan mín, er sjónskertur stjórnmálamaður á Gotlandi sem skrifar svo fallega um náttúruna. 

Gotland glímir við grunnvatnsvanda en gaman er að sjá skapandi lausnir íbúanna. Árlega er efnt til samkeppni um ljótustu grasflötina og vinnur sá sem vökvar minnst. Í strætó er skemmtileg auglýsingaherferð sem hvetur heimamenn og gesti til að baða sig í hafinu. Ég minnist þess ekki að hafa verið sett í sturtu eftir böð í Breiðafirði sem barn enda er fátt unaðslegra en salt á húð og hári. Og fyrst ég er að tala um vatn: Kranavatn er drykkjarhæft í allra Evrópu og óþarfi að burðast með það í plastflöskum. Spyrjið þó ef þið ferðist lengst í suður og austur.

Skrifað með öllum skilningarvitum

Ég hafði næstum gleymt hvað Svíar eru opnin og skemmtileg þjóð og hvað lifnaðarhættir þeirra og sambýlisform eru miklu fjölbreytilegri en okkar. Þeir eru líka upp til hópa ákaflega miklir náttúruunnendur en öfugt við okkur sem kjósum víddir sogast þeir að hinu smáa. Svíar skoða náttúruna með aðdráttarlinsu á meðan við notum víðlinsuna. Annað sem mér finnst þægilegt í Svíþjóð er að hér talar fólk tímunum saman um hin aðskiljanlegustu efni án þess umræðan umbreytist í sögur af fólki. Sjálf er ég reyndar því marki brennd að tala stöðugt um fólk og reyndar er yfirskrift ferðar minnar eins og þið munið ,,Europe is all about people.”

Og ritlistarnámskeið fjallar eðlilega töluvert um sögur af fólki. Ég skrifaði smásöguna Lilla fru Burs stora liv og var ánægð með að uppgötva að sænskan er mér enn töm við skriftir þótt tungumálið eigi það til að taka af mér stjórnina þegar ég skrifa á öðrum málum en íslensku. Námskeiðið var afar gott og ég kafaði svo djúpt ofan í persónusköpun  að nú velti ég fyrir mér hvort ung kona með orma í maga hafi birst mér á hosteli í Stokkhólmi sem hluti af ritlistaræfingu.

Hér, hér og nú, nú

Í upphafi námskeiðs tilkynnti ég að þessa vikuna hyggðist ég vera ,,just just här, just just nu” og undirstrikaði ákvörðun mína með því að týna úrinu. En að síðustu æfingu námskeiðsins lokinni dró hin finnlandssænska Sophie fram stól á bókasafninu og sagði:
– Er þetta ekki úrið þitt, Björg?
Ég er þakklát æðri máttarvöld fyrir að taka svona af mér stjórnina í þeim göfuga tilgangi að leyfa mér að vera úrlaus hér, hér og nú, nú.


Með nesti á ströndinni

Eftir viku í fullu fæði á lýðháskóla þurfti ég enn að lengja í böndunum á bakpokanum. Reyndar er mér það hulin ráðgáta hvernig ég get þyngst jafnt og þétt þegar ég hef þrammað um það bil vegalengdina á milli Stokkhólms og Valensíu. Mig grunar helst að þeir komi um nætur og setji orma í maga mér.

Þótt gaman sé að þramma var mér samt létt þegar ég settist upp í Ryan Air vélina að þurfa ekki að ganga álfuna endilanga aftur. Ég einbeitti mér að því að njóta flugsins en á síðari árum hef ég lært að  njóta sjálfrar ferðarinnar en ekki bara áfangastaðarins. Skáldkonan Karin Boye skrifaði ,,det är resan som är mödan värd” sem útleggst í óvirðulegri þýðingu ,,það er ferðalagið sem er vesenisins virði.”

Fyrir aftan mig í vélinni var mikið af börnum á leikskólaaldri sem töldu sig komin í tívolí þegar ókyrrð var í lofti. Börnin hlógu og skríktu í dýfunum og læknuðu jafnvel flughræddasta fólk. Og samkvæmt fallegri venju fylltu sænskir farþegar vélina lófataki þegar hún snerti spænska jörð.

Mín beið mánuður í Valensíu.