Interrail

Gdansk fyrr og nú. Ferðaskrif Bjargar Árnadóttur #2

Auðvitað hef ég ekkert nennt að skrifa heldur þrammað endalaust í þrjá daga um hina dásamlegu Gdansk-borg. En nú hef ég virkjað Interrail-passann og sit við skriftir á leiðinni til Varsjár.

Til Gdansk kom ég á laugardagskveldi og eftir að hafa kastað kveðju á herbergisfélagana á hræódýru en huggulegu hosteli í hjarta borgarinnar skrapp ég út til að líta á lífið. Á bæinn settu svip sinn ótal tilvonandi brúðir og meðfylgjandi gæsir af ólíkum þjóðernum, allar íklæddar örstuttum pilsum. Af því dró ég þá mikilvægu ályktun að sumartískan í ár verður í snípsídd.

Ég ákvað að hefja ferðalag mitt í Póllandi vegna þess hve ég dáist að þjóðinni sem þetta land byggir. Pólverjar hafa lifað tímana tvenna í frjósömu landi sem á hafa dunið hörmungar og hallæri, innrásir og loftárásir, heimsstyrjaldir, heimskreppa og heimskommúnismi. Í síðari heimsstyrjöldinni, fyrsta stríði sögunnar sem hæfði óbreytta borgara, létu fimm milljónir Pólverja lífið og heimili, bóndabýli, verksmiðjur og opinberar byggingar voru lögð í rúst ásamt innviðum öllum. Uppbygging þessarar æðrulausu og harðduglegu þjóð er þrekvirki og ég gleðst á hverjum degi yfir að Pólverjar flykkjast til Íslands til að auðga samfélag okkar. Dziękuję!

Áður fyrr þótti mér stríðið heyra sögunni til en það var einmitt í Gdansk sem ég skildi fyrst hörmungar þess. Nafnið hljómaði kunnuglega þegar ég steig þar á land árið 1988 enda hafði stærsta hafnarborg Póllands komið daglega við sögu í skipafréttum Ríkisútvarpsins. Mér fannst ég líka pínulítið persónulega tengd samtímasögu landsins af því að blaðakona á Norrländska socialdemokraten, blaðinu sem ég skrifaði pistla í, hafði hitt verkalýðsleiðtogann heimsfræga, Lech Wałęsa. Seinna varð blaðakonan líka fræg því spennusögur Lizu Marklund slógu í gegn.

Þegar sænska Póllandsferjan lagðist að landi í Gdansk tók við fjögurra tíma bið eftir tollskoðun í bláum Volvo undir brennandi júlísól. Tollverðir, gráir fyrir járnum, leituðu hágt og lágt og börnum okkar varð ekki um sel þegar þeir tóku að gramsa í leifunum af kartöflusalatinu. Við vorum orðin svöng þegar við losnuðum en fundum aðeins kjöt- og mjólkurbúðir þar sem sloppklæddir boldungskvenmenn hjuggu stykki af stórgripum og skelltu klípu úr smjörfjalli á umbúðapappír. Börnunum þótti pólskur matur ólystugur og átu ekkert nema ís og fræ sem þau fengu að kroppa úr sólblómavöndum alla leiðina yfir endilangt landið þar sem búsældarlegir akrar breiddu úr sér og gamlar konur ráku kú  fjölskyldunnar eftir þjóðveginum.

En þetta ætlaði ég ekki að rifja upp heldur hitt hvernig ég upplifði Gdansk rúmum fjörutíu árum eftir stríðslok. Mér þótti ég ganga inn í eina af þeim svarthvítu heimildamyndum sem á sínum tíma voru gerðar um uppbyggingarstarf eftirstríðsáranna. Árið 1988 var Gdansk ennþá meira og minna rústir einar. Mig sveið í samviskuna yfir hægri uppbyggingunni líkt og síðar þegar mér fannst fátæktin á Indlandi vera mea culpa. Mín sök.

Í dag er miðborg Gdansk einstaklega falleg og full ferðamanna sem þyrstir í rafskartgripina sem þetta landsvæði er þekkt fyrir. Enga heyrði ég íslenskuna en hefði getað haldið að norska og sænska væru þarna opinber tungumál. Ég breyttist umsvifalaust í ferðaskrifstofu á fæti þegar ég svaraði spurningum Skandínavanna um hvað helst væri að sjá í landinu sem þeir höfðu hætt við að heimsækja vegna verðlagsins en lent í Gdansk í staðinn.

Ég keypti mér ferð á litlu farartæki með leiðsögumanninum Marcin. Hann kenndi mér að lesa borgina og sjá hvernig múrsteinarnir yngjast eftir því sem ofar dregur á byggingunum. Við mylluna stóru sem eitt sinn var sú afkastamesta í Evrópu heyrði ég utan að mér hrópuð slagorð og spurði hvort verið væri að mótmæla þjóðernissinnuðum stjórnarháttum eins og til stóð að gera um allt Pólland þannan sunnudag. Marcin lagði við hlustir en sagði svo að þetta væru bara nokkrar ungar og fallegar konur sem hefðu ánægju af að hrópa dónaleg orð á torgum. Greinilega ekki femínisti, hann Marcin, en mikið þótti mér vænt um að hann kallaði mig a true traveller þegar hann lét mig út við Safnið um síðari heimstyrjöldina.

Það reyndist áhrifamesta safn sem ég hef séð um efnið en ég þarf að melta það betur áður en ég reyni að skrifa um það. Eftir fjögurra tíma rölt um safnið tókst mér ekki að finna útgönguleiðina úr hryllingnum og endaði með að hlaupa í fylgd jafn týndra Breta í gegnum helförina. Mér létti þegar ég settist á kaffihús handan götunnar og heyrði John&Yoko syngja All we are saying is give peace a change.

Um kvöldið átti ég spjall við náungann í næstu koju sem reyndist vera Úkraínumaður í atvinnuleit. Hann var afar áhugasamur um safnið en átti ekki fyrir aðgangseyrinum. Mig langaði en kunni ekki við að gefa honum 800 krónur en ákvað í staðinn að kenna sjálfri mér um misskiptingu heimsins gæða og blóðugt stríðið sem skollið er á hér handan landamæranna.

Marcin sýndi mér Lenín-skipasmíðastöðvarnar þar sem félagar í verkalýðsfélaginu Solidarność hófu með samstöðu sinni að reka nagla í kistu kommúnismans. Daginn eftir fór ég í stutta bátsferð til Westerplatte þar sem Póllandsferjan lagðist líklega að landi árið 1988 þótt staðurinn sé frægari fyrir að þar hófst síðari heimstyrjöldin með innrás Þjóðverja í Pólland.

Mig langar til að skrifa um fríríkið Danzig, bitbein þessarar deilu, og um fríríkið Kalinigrad sem mig langaði til að að heimsækja ásamt Eystrasaltríkjunum. Ég segi ykkur frá því síðar af hverju ekkert varð af þeim heimsóknum.

Nú nálgast ég Varsjá og sé að samferðastúlkur mínar eru farnar að tygja sig. Þær eru frá Azerbejdżan og segjast hafa laumast að heiman í skjóli nætur til að stunda nám í alþjóðaviðskiptum í Póllandi. Þegar þær mættu í skólann kom þeim á óvart að 90% nemenda deildarinnar reyndust vera frá heimalandi þeirra. Pólland er fyrirheitna landið Azerbejdsanna líkt og Ísland er  Pólverjum fullt fyrirheita.

Í Varsjá mun ég hitta Monicu og Pjotr og vinkonur mínar í Fundacia Atalaya. Segi ykkur frá því síðar.

Myndina tók Marcin af mér og faratæki sínu framan við skipasmíðastöðvarnar.