Á myndinni er ég ásamt tilfallandi ferðafélaga á partíhosteli í Prag. Héðan átti að úthýsa mér enda hámarksaldur 40 ár en fyrir misskilning, sem ég leiðrétti ekki, taldi starfsfólk mig útsendara Alþjóðasamtaka Farfugla og nú fæ ég toppþjónustu.
Í þessum skrifuðum orðum er ég að breyta birtingarætlun ferðar minnar. Ég ætlaði að halda mig við að blogga (enska orðið blog þýðir web log eða vefdagbók) en finn hvað ég sakna samskiptanna við ykkur þegar ég birti færslur hér á facebook innblásnar af augnablikinu.
Bloggin eru erfiðari, í þeim þarf að vera einhver þráður og nú er ég komin langt aftur í dagbókarskrifum úr enda fer mestallur tími minn í að lifa, njóta og þeysast á milli staða (og auðvitað í að skammast mín svolítið fyrir að vera að þessari vitleysu).
Ég ætla því að halda áfram að henda inn færslum á facebook en skrifa reglulega ígrundaðri blogg á vefsíðu Stílvopnsins. Þið finnið mig á facebook.
Ég á alveg eftir að skrifa um leiklistarupplifanir meðal vina í Prag, heimsóknina til Maríu vinkonu minnar, brúðuleikara í Bielsko Biala, um fjögurra tíma stopp í pólsku krummaskuði þar sem ekkert var nema ég og þrír rónar, um gönguferðir mínar um Prag í fylgd Kafla og nýja vinar míns, Jirí Weil, höfundar Lamentation for 77,297 Victims. Bókin er stutt en áhrifamikið harmakvein í formi prósaljóðs og inn á milli nöfn allra tékknesku gyðinganna sem útrýmt var.
Svo á ég eftir að lýsa því hvernig er að ferðast á Interail og búa á hostelum sem eru jafn ólík og gestir þeirra – og um þá áskorun að lifa í litlum bakpoka og vera innan um annað fólk dag og nótt.