Hugmyndin að baki Tólf spora ævintýrinu:
„Þótt ég hafi kennt frásagnaraðferð Hetjuferðarinnar í allmörg ár kynntist ég hugmyndafræðinni upphaflega sem leið til að takast á við áskoranir lífsins,“ segir Björg Árnadóttir, leiðbeinandi í smiðjunni.
„Ég fann fljótt að í hinni ævafornu Hetjuferð er farinn sami þroskahringur og í Tólf-spora-kerfinu, útbreiddustu sjálfs- og samhjálparaðferð heims. Líklega eigum við Íslendingar heimsmet í iðkun sporanna og sjálf hef ég stundað þau lengi.
Þegar ég kom auga á þessi líkindi taldi ég mig hafa gert tímamótauppgötvun. Svo gúgglaði ég saman Hetjuferðina og Tólf-spora-leiðina og sjá – ég fann ég 5.8 milljónir greina!
Í stað þess að lesa þær allar fór ég smám saman að þróa eigin aðferðir til að spegla Sporin tólf í Hetjuferðinni. Þá kom sér vel að þekkja The Artist’s Way: A Spiritual Path to Higher Creativity (1992), metsölubók bandaríska rithöfundarins Juliu Cameron. Sú bók er fólki víða um heim biblía í leitinni að sköpunarmætti hversdagsins.
Í smiðjunni flétta ég þessar þremur aðferðum saman í tólf klukkustunda krefjandi en afar skemmtilegt þroskaferðalag.“
VIÐTAL VIÐ BJÖRGU um Tólf spora ævintýrið, Hetjuferðina, samfélagslistir og fleira
Hetjuferðin í stuttu máli
Hetja Hetjuferðarinnar er ekki ofurhetja heldur sú sem þrátt fyrir óttann þorir að takast á við breytingar.
Í sínu þekkta umhverfi heyrir hetjan kall til ævintýris en til að geta hlýtt kallinu þarf hún að yfirstíga innri og ytri þröskulda. Hetjan stígur hún inn í óþekktan heim ævintýrisins þar sem bíða hennar ögrandi þroskaverkefni. Hún hlýtur eldskírn og öðlast gjöf í ferli friðþægingar og sátta og snýr umbreytt aftur til síns heima með gjöfina sem gagnast samfélagi hennar öllu.
Ferðalag hetjunnar hefur birst okkur í óteljandi frásögnum í aldanna rás.
Sporin tólf spegluð í Hetjuferðinni:
Við (hetjurnar) viðurkenndum vanmátt okkar (heyrðum kall til breytinga) og þáðum hjálp til að takast á við breytingar (yfirstigum innri og ytri hindranir). Við unnum með bresti okkar (eldskírn í óþekktum heimi ævintýrisins) og bættum fyrir misgjörðir (í ferli friðþægingar og sátta). Við urðum fyrir andlegri vakningu (hófum umbreytingarferil og öðluðumst gjöf) og bárum öðrum boðskapinn (gáfum áfram gjöfina sem okkur var gefin).
Verið hjartanlega velkomin með mér í Tólf spora ævintýrið!
Viltu vita meira? Ekki hika við að spyrja. s. 899 6917 /bjorg@stilvopnid.is