Interrail

#1: Eldri kona á Interrail. Ferðaskrif Bjargar #1

Stundum er ég skömmuð fyrir að kalla mig eldri konu. Þú átt að segjast vera ung til að finnast þú vera það, er mér sagt en ég leyfi mér að vera ósammála. Mér finnst ég ung í anda og sinni þótt ég noti rétta orðið um árin sem aukið hafa mér þroska og lífsleikni. Ég gleðst yfir gráum hárum og fagna því að vera fjölær.

Þegar ég hélt upp á sextíu og fimm ára afmælið í haust laust hugmynd niður í lífsreyndan huga minn. Eftir að hafa litið yfir farinn veg með vinum og vandamönnum í veislunni datt mér í hug að endurnýta þessa reynslu og ef til vill endurupplifa hluta lífs míns. Ég ákvað að skella mér á Interrail.

Síðast fór ég á lestarflakk sautján ára. Það var 1975, þremur árum eftir að fyrsti Interrail-passinn hafði verið gefinn út í tilraunaskyni. Tilboðið sló í gegn og í fyrra fagnaði Interrail fimmtíu ára afmæli. Í minningu minni flökkuðum við öll ungmenni álfunnar um í lestum á áttunda áratugnum enda var Interrail farmiði út í frelsið og spor í átt að landamæralausri Evrópu.

Ég á örugglega eftir að sjá sjálfri mér bregða fyrir á einhverjum lestarpallinum í sumar, sautján ára með prímus og tjald. Fyrri ferð get ég þó aldrei endurupplifað enda er allt svo breytt. Þá ferðaðist ég vestantil í álfunni með árinu eldri kærasta alla leið niður að hinu framandi Miðjarðarhafi. Yfir lestarklefum lá þung hvítlaukslyktin líkt og hún væri áþreifanleg, hænur kíktu upp úr körfum heimamanna og evrópskir hreinlætisstaðlar voru enn óuppfundnir. Á fyrra flakki hoppuðum við gjarnan upp í næstu lest án þess að vita hvert hún bæri okkur enda skipti það sjaldnast máli.

Nú er Interrail í boði fyrir alla aldurshópi með afslætti fyrir ungmenni og eldri borgara. Það mun vera vissara að tryggja sér sæti í lestum og gistingu að minnsta kosti yfir hábjargræðistíma túrismans. Sjálf ætla ég að velja skemmtilegustu gististaðina, hostelin og farfuglaheimilin, þar sem væntanlegir vinir mínir kúra í næstu kojum. Ég hef kynnst afar áhugaverðu fólki í svefnskálum víða um heim en á hótelum þykir mér erfitt að mynda tengsl.

Mín bíður líka gisting á sófum samverkafólks hér og hvar en ég fer þessa ferð meðal annars til að treysta vináttubönd- og samvinnubönd. Leið mín um Evrópu verður vörðuð vináttu. Þótt ýmislegt megi segja um Evrópusambandið finnst mér fegurð þess liggja í grasrótastarfi mennta- og menningaráætlananna sem ég hef tekið mikinn þátt í. Þar kynnist maður kjarna samstarfsþjóðanna og því sem sameinar okkur og sundrar.

Ég byrja í Visegrád-ríkjunum svokölluðu; Mið-Evrópulöndunum Póllandi, Tékklandi, Slóvakíu og Ungverjalandi sem hafa frá árinu 1991 átt víðtækt menningar-, efnahags- og hernaðarlegt samstarf. Síðan er ferðinni heitið til landa Balkanskagans. Um fjölda þeirra ber heimildum ekki saman enda eru skilgreiningar ýmist landfræðilegar eða menningarlegar. Ég hef séð þau flest tólf þegar Transnistria er talin með.

Mig langar að gera enn eina tilraunina til að skilja flókna sögu suðausturhluta Evrópu, álfunnar sem ég elska. Þvínæst ég alls óskylt erindi alla leið norður til sænsku eyjarinnar Gotlands og þaðan til Valensíu á Spáni þar sem ég dvel í mánuð áður en ég held heim í ágústlok.

Í hvert sinn sem litaglöð veðurviðvörun hefur skollið á okkur í vetur hef ég flakkað í huganum um sólrík lönd og hlakkað til að hleypa heimdraganum. En nú þegar stutt er í brottför er ég hins vegar skelfingu lostin. Mig langaði til að brjóta upp rútínu þeirrar eldri konu sem ég óneitanlega er og skera niður óþarfar þarfir mínar en þegar ég horfi á lítinn bakpokann sem verður ferðafélagi minn næstu þrjá mánuði fallast mér hendur. Auk þess er ég fyrirfram farin að sakna sumarbirtunnar og auðvitað þín, þjóð mín!

Þó veit ég af reynslu að um leið og ég spenni á mig pokann og býst til flugtaks finn ég byr undir báðum vængjum. Ég flýg til Gdansk þann 3. júní og býð þér að fylgja mér á flakkinu.

Viðtal um ferðina í Mannlega þættinum (hefst á mín. 37.44)

Myndin er tekin fyrir örfáum árum í hinni fallegu, serbnesku borg Novi Sad. Í sumar á ég aftur erindi þangað.