“Europe is all about people” ferðaskrif Bjargar #3

Þegar ég hafði útskýrt intak ferðalags míns fyrir Anne sagði hún svolítið sem ég er svo innilega sammála:
– Europe is all about people.
Á myndinni er ég með nokkrum sálfræðinganna hjá Fundacja Atalaya.
Anne er í forsvari fyrir samtökin Fundacja Atalaya sem reka nokkur áfangaheimili fyrir börn í neyð í Varsjá. Hingað er ég komin til að hitta hana og sálfræðingateymið. Á kaffistofunni svigna borð undan krásum keyptum í tilefni komu minnar og gómsætum pączek sem bakari neðar í götunni fær árlega pólsku Bolludagsverðlaunin fyrir. Mér finnst pólskur matur góður, ekki síst bragðmikið grænmetið, berin og ávextirnar sem ekki eru fröktuð yfir hálfan hnöttinn heldur ræktuð í heimabyggð. Ég kemst í algleymisástand þegar ég bít í epli.
Það hitnar í herberginu þegar talið berst að nýlegum mótmælum hálfrar milljónar Varsjárbúa gegn stjórnvöldum. Mest skekur það ungu konurnar hvað opinberar fréttastofur draga úr mannfjöldanum sem þær sjálfar sáu, í fréttum er talað um örfáar hræður. Það er ólga undirliggjandi í pólsku samfélagi.
Loks skiptir hin líflega Pauline um umræðuefni og segir mér brosandi að vikan með mér í Reykjavík hafi breytt venjum þeirra og viðhorfum til skrifa. Nú séu þær farnar að nota ritlist sem eina af meðferðaraðferðum sínum og líka sem eigin sálarspegla. Það gleður mitt litla hjarta hvað sérsniðið námskeiðið, styrkt af Uppbyggingarsjóði EES, þótti skemmtilegt. Ein bloggaði um Íslandsferðina og eina færsluna tók ég sérstaklega til mín: Miðaldra konur á Íslandi eru allar með stutt, úfið hár eins og þær hafi gefist upp fyrir rokinu.

Við Mónika.
Eftir að hafa kvatt sálfræðingana mína held ég til fundar við gamla vinkonu sem þó er ung.
– Þú getur ekki ímyndað þér hvað glöð ég er að fá loks einhvern í heimsókn til Varsjár, segir hin tékkneska Monika sem flutti frá Prag fyrir tveimur árum ásamt pólskum eiginmanni og tveimur börnum. Við kynntumst á Íslandi fyrir áratug þegar ég pikkaði upp kornungan puttaling og hýsti í viku norður í Mývatnssveit. Monika endurgalt greiðann fyrir nokkrum árum með leiðsögn um gamla bæinn í Prag og er nú að sýna mér gamla bæinn í Varsjá sem reyndar er aðeins sögulega gamall en allur endurnýjaður eftir eyðileggingu síðari heimsstyrjaldarinnar.
– Hefði ég flutt til Kraká eða Gdansk myndu gestirnir flykkjast til mín en engan langar víst til Varsjár, kvartar hún. Vissulega eru Kraká og Gdansk skemmtilegar ferðamannaborgir en hin kyrráta Varsjá finnst mér engu síðri. Ég fann ró færast yfir mig um leið og ég steig út úr lestinni. Umferðin er hæg og einkennist af tillitssemi, vasaþjófar fyrirfinnast ekki og hvarvetna finnst mér ég heyra fuglasöng úr grænum görðum. Þétting byggðar virðist ekki á dagskrá þrátt fyrir húsnæðisskort, ekki síst eftir komu flóttafólksins frá Úkraínu. en Monika segir að hin tilkomumilka breidd gatnanna hafi ekki komið til af góðu:
-Mér er sagt að að göturnar hafi verið endurgerðar svona breiðar til að skriðdrekarnir kæmust um þær.
Borgarlína Varsjárbúa er líka sögð afar góð – fyrir þau pólskumælandi. Sjálf þurfti ég oft að grípa til Uber af því að ég skildi ekki skiltin. Sumir bílstjóranna gáfu kumpánlega kost á spjalli á meðan aðrir voru uppteknir undir stýri af nánum myndfundum með fáklæddum spúsum sínum austar í álfunni. Þá var ég fegin að skilja ekki.
Ég á aðeins eina skýra minningu frá Varsjá úr fjölskylduferð okkar austantjalds árið 1988: Ég er stödd á stóru torgi innan um hálfhrunin hús. Ung kona nálgast mig varlega og réttir mér pappírsörk sem vafin er utan um eitthvað. Þótt ég þekki vasaþjófatrikkið teygi ég mig ósjálfrátt efti bögglinum. Hún segir eitthvað óðamála um leið og hún horfir djúpt í augu mér og er svo horfin á braut. Eftir stend ég eftir með svitalyktareyði í höndunum, hissa enda minnist ég ekki að nokkur hafi áður sett út á persónulegan þrifnað minn. Auk þess taldi ég deódórant lúxusvöru sem Vesturlandabúar ætti frekar að gefa en þiggja.
Auðvitað er engin vélþýðing í boði og varla enskumælandi manneskja í allri borginni. Atburðurinn er mér því hulin ráðgáta. Ég þykist samt sjá að textinn samanstendur af ritningargreinum og veit að austantjalds er farið leynt með boðun guðs orðs.
Kaþólska kirkjun hefur nú alldeilis rétt úr kútnum, öfugt við til dæmis nágrannalandið Tékkland. Monika segir að þar hafi fólk að mestu náð að gleyma trúnni og mesti munurinn á þjóðfélögunumtveimur sé vald kirkjunnar í Póllandi. Öll sem ég tala við segja kirkjuna liggja sem mara yfir samfélaginu og hamla framþróun. Trúariðkun er afar sýnileg og kallað til tíða úr fjölmörgum, fallegum kirkjum. Fólk grípur til talnabandanna á milli sporvagnsstöðva og kuflklædda nunnu sá ég stíga zumbaspor í danskennslu í almenningsgarði.
Ég glápi kannski allt of mikið á fólk en ég kann að gera það laumulega. Ég bregð á mælistiku auga míns á hlutföll andlita og líkama og velti sálarlífinu yfir mér. Í Varsjá sá ég eldri konur blasta undirleikslausum söng á torgum, ungmenni skissa byggingar samkvæmt ströngum fjarvíddarlögmálum eins og við gerðum í gamla daga og heyrði drukkna menn hrópa á strætum uppáhaldsorð drukkinna Pólverja: Kurwa!
Og hversdagleg gjörð konu nokkurrar grætti mig næstum. Hún stóð á lestarpalli íklædd vel sniðinni drakt þegar hitinn rak hana úr jakkanum. Það sem snerti mig var að konan sneri jakkanum á rönguna áður en hún lagði hann í réttum brotum yfir handlegg sér. Sjónin tók mig hraðbyris aftur í veröld sem var – tíma þegar við Íslendingar fórum ennþá vel með eigur okkar.

Við Pjotr.
Síðasti dagur minn í Varsjá var opinber frídagur vegna Corpus Christi. Ég missti af hátíðahöldunum en átti stefnumót við Pjotr sem náði á stuttum tíma að fræða mig um heimaborg sína, heimaland og heiminn allan eins og hann er að verða. Pjotr er fyrrverandi tengdasonur minn, leikari sem ungur hitti tónlistarkonuna dóttur mína og bjó um skeið í Reykjavík þar sem hann sinnti tilfallandi verkamannastörfum og stundakennslu við pólska skólann. Ég gleymi aldrei einu sem hann sagði:
– Ég hef farið víða en aldrei áður orðið fyrir fordómum vegna þjóðernis míns.
Umhugsunarvert.
Nú hefur Pjotr breytt um stefnu og notar leikaramenntunina meira í starfi sínu sem sálmeðferðarfræðingur. Hann hjálpar fólki að nota líkamann í vinnu með áföll einkum með bíóenergískum og Grof Transpersonal Training aðferðum. Ég ætla að taka tíma hjá honum á netinu þegar ég verð komin til Prag. Hafið endilega samband ef þið viljið prófa – þið getið ekki ímyndað ykkur verðmuninn á sáluhjálpinni hér og heima.
Við Pjotr eigum eitt sameiginlegt – óeðlilegan áhuga á Eurovision. Pjotr kann að hafa smitast á Íslandi en áhugi minn stafar einungis af einu: Eurovision is all about people.
Ég lofaði í síðustu færslu að útskýra af hverju ég fór ekki til Eystrasaltsríkjanna eins og ég lagði upp með. Johnny, belgískur kennari sem bjó í Litháen þegar ég kynntist honum á einhverri tengslaráðstefnunni, hefur sent mér allmarga ættingja til leiðsagnar um Reykjavík og því þótti mér í lagi að biðja hann um hjálp í Litháen.
Hann reyndist fluttur til heimalandsins, bar sig aumlega yfir fráfalli eiginkonu sinnar en sá að það gæti verið góð leið úr sorginni að lóðsa mig um Litháen. Hann langaði að kynna mig fyrir magnaðri vinkonu sinni sem heitir Rasa og er menningarverkamaður í fátækri borg að nafni Jurbarkas. Borgin er í nágranni einskismannslandsins Kaliningrad (Köningsberg) sem er rússneskt fríríki umlukið Póllandi, Litháen og Eystrasaltinu.
En við undirbúning fyrsta áfanga ferðarinnar kom í ljós að Rússar höfðu lagt lítið í lestarsamgöngur í leppríkjum sínum. Beinar samgöngur á milli höfuðborganna þriggja komast til dæmis ekki í gagnið fyrr en með Rail Baltica árið 2030. Það reyndist líka erfitt að komast til Jurbarkas og Kaliningrad er að sjálfsögðu harðlokuð vegna hættu á landflótta út úr þessum hluta Rússlands og smygli inn í hann.
Johnny heldur því sorgarvinnu sinni áfram á keramikverkstæði konu sinnar heitinnar í Belgínu en ég hóf ferð mína í Gdnask. Nú hef ég farið í gengum endilangt Pólland með stoppi í smáborginni Bielsko-Biala. Þegar þetta er skrifað er ég komin til Prag.
Sjáumst síðar.