Interrail

Táragas, friðsæld og fuglasöngur. Ferðaskrif Bjargar #8

Sjö vikur af tólf eru liðnar af ferðinni þótt aðeins sé vika eftir af búsetu minni í bakpoka. Ég finn hvernig ég tvíeflist við hverja raun og sé sjálfsstraustið vaxa veldisvexti frá degi til dags. En mittismálið hefur að sama skapi aukist í löndunum sem státa af ómótstæðilegustu kaffihúsum heims.

Frá því að ég skrifaði frá Timisoara í Rúmeníu hef ég dvalið í Novi Sad og Opatija, staldrað við í Ljubljana og München og er nú í hvíldarinnlögn í dejlige Danmark hjá heiðurshjónunum Þóreyju og Lóa sem eins og Jóna í Ungverjalandi buðu mér að búa hjá sér þrátt fyrir stutta viðkynningu. Hér í borginni Sønderborg við þýsku landamærin rifja ég  upp hvernig er að vera Íslendingur á Norðurlöndum áður en ég held áfram til minnar ástkæru Svíþjóðar.


Takk Þórey Jónasdóttir og Þór Jóhannsson. 

Fegurð Slóveníu

Ljubljana er líkt og Timisoara, Novi Sad og Opatija friðsæl borg full af fuglasöng.

Hér stoppaði ég aðeins einn dag en hef áður notið fallegu borgarinnar sem verið hefur höfuðborg Slóveníu frá árinu 1991 þegar Slóvenar yfirgáfu fyrstir þjóða ríkjasamband Júgóslavíu. Bílaumferð er hér bönnuð um gjörvallan miðaldamiðbæinn, eingöngu lifandi tónlist leyfð og götur iða af gangandi fólki; gömlum hippum og yngri hipsterum auk fína fólksins sem klæðir sig á ákaflega ,,posh” ítalskan hátt. Þótt frjálsræði virðist drjúpa af hverju strái segja aðrir íbúar Balkanskagans að Slóvenar séu ekki eins frjálslyndir og þeir vilja vera láta.

Frá Ljubljana er auðvitað skylda að skreppa til Bled en í æsku minni prýddu myndir af ægifögrum bænum iðulega konfektkassalok en nú einkum skjáhvílur.


Þekkt mynd frá Bled.

Fegursta leiðin

Ferðin frá Ljubljana í gegnum Salzburg til Munchen var tvímælalaust fegursta dagleið ferðar minnar. Ég prófaði að hafa jóðl og glockenspiel í eyrunum á meðan lestin leið um sólríkar suðurhlíðar júlíönsku alpanna en fann að hugljúfar sellósónötur Chopins fönguðu fegurð Alpanna best.

Brúnskjöldóttar kýr voru á beit í iðagrænum högum langt upp í skógivöxnum hlíðum  himinhárra fjalla og öðru hvoru sá ég glitta í hjarðsveininn Kerec sem þekktur er úr slóvönskum barnabókum. Þgar ég nálgaðist Salzburg fannst mér hins vegar skylda mín að spila The Hills are Alive þótt ég viti að Austurríkismenn þekkja yfirleitt ekki Sound of Music nemi þau sem vinna við að gera sér mat úr áhuga Bandaríkjamanna á tökustöðum myndarinnar.

Novi Sad í Serbíu

Frá Rúmeníu kom ég fyrir rúmri viku til Novi Sad (Нови Сад með kyrillískum rithætti serbneskunnar), borgar sem oft er kölluð Aþena Serbíu vegna fegurðar sinnar og ríkrar menningararfleifðar. Hún er höfuðborg sjálfstjórnarhéraðsins Vojvodina við landamæri Ungverjalands en héraðið er þekkt fyrir frjósama ræktun, hraða efnahagsþróun og lýðfræðilegan fjölbreytileika íbúanna.


Opinber mynd af Novi Sad.

Víðáttan í borginni er það fyrsta sem vekur athygli en eitt einkenni borga um þessar slóðir mun vera víðfeðmi almannarýmanna sem talið er auka víðsýni borgaranna. Víðsýnin nær þó ekki til kynsegin málefna. Síðan vinkonur mínar, Isidora og Vedrana, giftu sig og urðu verðandi mæður dreymir þær um að flytja á umburðarlyndari breiddargráður.


Barnshafandi ást.

Vinátta okkar, eldri gagnkynhneigðrar forréttindakonu frá Norðurlöndum og samkynhneigðra, serbneskra baráttukvennna, er líklega nokkuð óvenjuleg en henni höfum við viðhaldið með gagnkvæmum heimsóknum síðan við kynntumst í Evrópusamsstarfi fyrir nokkrum árum. Kynni mín af þessum konum hafa heldur betur aukið mér skilning á hinsegin og kynsegin málefnum.

Draumur þeirra um líf vestar í álfunni er sem betur fer ekki eins fjarlægur og ætla mætti. Sumir íbúa Vojvodina hafa af sögulegum ástæðum tvöfalt ríkisfang og hið ungverska opnar Vedrönu og eiginkonu hennar aðgang að löndum Evrópusambandsins. Ég vona að menntun þeirra á sviði sálfræði og menntunarfræði og ævilöng reynsla af átaka- og krísustjórnun verði til að þær fái vinnu í landi þar sem báðar geta skráð sig sem foreldri barns síns.

Mótmælin

En sorg ríkti á heimilinu þegar mig bar að garði. Um morguninn höfðu borist fréttir af niðurbrytjuðun líkamsleifum átján ára transstúlku sem fundust höfðu í fjölda plasstpoka. Í Serbíu er  transfóbía ríjandi þótt landið með sínum hæfu skurðlæknum sé í fararbroddi í kynleiðréttingartúrisma heimsins.


Markmiðið göngunnar var að teppa um hríð umferð um eina brúna yfir Dóna til að vekja athygli á vaxandi ofbeldi.

Um kvöldið var mér boðið í eina af þeim friðargöngum sem haldnar eru í öllum borgum um þessar mundir til að mótmæla andvaraleysi ríkisstjórnar Aleksandar Vučić gegn sívaxandi ofbeldisöldunni í landinu.

– Hvernig klæði ég mig fyrir mótmælin? spurði ég.
– Í hlaupaskó, með sjal og stóra vatnsflösku ef táragasi verður beitt, svaraði Vedrana en Isidora ákvað að fara ekki með til að vernda litla lífið. Gangan reyndist þó ekki hættulegri en venjuleg íslensk mótmælaganga og ég þekkti þarna ólíkar týpur úr mótmælagöngum annarra landa. Tvær eldri konur gáfu sig á tal við mig, hvor í sínu lagi, og tjáðu mér þá bjargföstu skoðun sína að Ísland sé mesta lýðræðisríki heims. Og aldrei fór það nú svo að ég kæmist ekki í serbneska fjölmiðla.


Mynd af serbneskri vefsíðu.

Ég man ekki nafn konunnar en hún hefur gengið friðargöngur í áratugi og trúir á íslenskt lýðræði.

Minningarathöfnin

Öllu ógnvænlegri reyndist minningarathöfnin um transstúlkuna þá um kvöldið. Lítill hópur myndaði hring um logandi kerti á meðan óeinkennisklæddir lögreglumenn fylgdust með hópi ungra manna sem sýndi syrgjendum ofbeldistilburði.

Ég varð vitni að því hvernig syrgjendahópurinn skipulagði með augngotum einum saman hvernig best væri að dreifa sér að athöfn lokinni til að forðast fyrirsát. Þá upplifði ég í fyrsta sinn á eigin skinni brot af  stöðugum undirliggjandi ótta vinkvenna minna.

Um kvöldið gerðist hins vegar nokkuð skemmtilegt –  ég hitti þriðju serbnesku vinkonu mína, okkar báðum að óvörum. Ég hafði ekki haft samband við Jelenu í Belgrad af því að mér var tjáð að hún væri erlendis en rakst svo á hana í bókstaflegri merkingu framan við hunangssölubás á miðnæturmarkaði í Novi Sad.

Annan eins undrunarsvip hef ég aldrei séð!


Isidora, Björg, Jelena og Vedrana á miðnæturmarkaði í Novi Sad.

Í aldingarðinum Eden

Sunnudeginum eyddum við á búgarði Sava og Lililju, foreldra Isidora. Bragðmeiri ávexti hef ég ekki smakkað en þá sem ég tíndi þarna upp í mig. Sava gekk með mér milli möndlu-, ferskju- og plómutrjáa, ólíkra tegunda af eplum og perum og alls kyns berjarunna og ég notaði orðið sem við bæði skildum ,,Aroma!“ (með stórum staf og upphrópunarmerki) til að lýsa bragðgæðum hverrar tegundar. Og réttir Lililju af nýslátruðu voru síst bragðminni. Þarna fannst mér  bragðlaukar mínir loks fá sitt verðugasta verkefni og datt ekki í hug að afþakka ábót enda þykir það ókurteisi í serbneskri sveit líkt og í íslenskri.
-Heima köllum við þetta kjötsvima, sagði ég þegar ég síðar um daginn útskýrði skyndilegt orkufall mitt en þær svöruðu:
-Við köllum það sunnudag með fjölskyldunni.


Aróma serbneskra ávaxta.

Og maturinn, maður lifandi.

Tító og nostalgían

Nú hef ég komið tvisvar til Serbíu, Króatíu og Slóveníu og einu sinni til Kósóvó. Mig langaði til Bosníu, fagurs lands fullu af sögu, en þangað ganga engar lestir frá Serbíu. Til að skilja Balkanskagann betur finn ég að ég verð að heimsækja Bosníu, Makedóníu og Svartfjallaland og líklega Albaníu líka. Þetta gæti orðið verkefni næsta sumars.

Mig langar að setja mig inn í ástandið í löndunum sem voru mér svo fjarlæg á meðan ég heyrði bræður berjast á Balkanskaga í hverjum fréttatíma. Mig langar að skilja þá eftirsjá sem ég skynja eftir gömlu Júgóslavíu, einkum meðal eldra fólks en einnig yngri umhverfis- og mannréttindakempa sem telja að málin hafa verið í betra lagi á tímum Títós heldur en í óheftum kapítalisma nútímans.

Átappaður tími á flöskum

Ég sat og gæddi mér á guðdómlegri tertu á einu glæsikaffihúsa baðstrandarbæjarins Opatija í Króatíu þegar ég heyrði lag sem ég mundi eftir úr æsku: If I could keep time in a bottle.

Ef ég gæti tappað tíma á flösku geymdi ég dagana þrjá í Opatija með merkimiðanum Glæsileiki austurálfunnar.


Konan með mávinn í Opatija.

Þeir gerast vart fallegri strandbæirnir en þessi litla borg við Adríahafið sem var hluti austurrísku Rívíerunnar með húsum sínum í Habsborgarstíl. Borgin er um níutíu kílómetra bæði frá Ljubjana og Trieste.

Gönguleiðin meðfram endilangri ströndinni kallast Keisaraleiðin og er kennd við Frans Jósef I (1830-1916). Hingað kom keisarinn reglulega af heilsufarsástæðum, til að synda í sjónum og anda að sér sérhönnuðu andrúmslofti sem fæst með samsetningu sérstakra trjátegunda, einkum lárviði, í görðum borgarinnar.  Þá sjaldan snjóa festir streyma íbúar Opatija í almenningsgarðana sína til að hrista snjóinn af viðkvæmum, aðfluttum trjágróðrinum.

Þar í borg fékk ég að búa með Isidoru og Vedrönu hjá móðursystur Verdrönu, yfirmanni dagvistarmála í sveitarfélaginu. Serbar kalla systkinabörn líka systkin og því hitti ég bróður Vedrönu, Robert Šuša, á ströndinni en gleymdi að taka mynd þótt maðurinn sé rokkstjarna og spili í bandi með höfuðpauri pönkhljómsveitarinnar LET 3 sem flutti eftirminnilega stríðsádeilu í Evróvision í ár.


Auðvitað er laufskrúðtrjánna grænt, ég var bara að leika mér með símann.

Að hætti innfæddra sóluðu Isidora og Vedrana sig í hengirúmum í skugga trjánna og skildu ekki hvað Íslendingurinn sótti á að vera hattlaus undir hádegissólinni.En einhverra hluta vegna hefur þessi Íslendingur alltaf verið ákaflega hitakær.

Ég skil að sjálfsögðu þau gríðarlegu vandamál sem fylgja ofsahitum í Evrópu en líður samt best þegar hitinn nálgast fjörutíu stiga mollu. Mér hentar loftslagið í Kanaríeyjum hins vegar illa þar sem ég veikist iðulega af höfuðverkjum vegna samspils sólar og vinds. Það gerist reyndar líka í Ölpunum enda þekkt að hinn frægi Föhn-vindur orsaki mígrenköst heilu þorpanna.

Og skelfing þykir mér kalt í Danmörku þessa dagana.

Stoppið var stutt í Munchen en þó rakst ég þar á sjálfa mig nítján ára gamla í eftirminnilegri ferð sem hafði þau afgerandi áhrif á líf mitt að ég lagði á listabrautina. Ein ástæða þess að hugur minn vex andlegum veldisvexti þessar vikurnar er sú að ég rekst stöðugt á sjálfa mig á ýmsum aldursskeiðum og á við mig uppbyggileg samtöl um lífið.

Nú stefni ég á Svíþjóð enda er margs að minnast frá sex ára búsetu þar í landi.

Vi ses.