Interrail, Óflokkað

Guð mun ráða hvar ég gisti næstu nótt. Ferðaskrif Bjargar #7

Á fullu tungli aðfaranótt síðastliðins mánudags gekk ég til náða í Rúmeníu. Ég var í réttu landi en tvö hundruð kílómetra frá kojunni sem ég hafði ætlað að kúra í.

Í síðustu færslu kvartaði ég örlítið undan skorti á veseni á þessu ferðalagi mínu. Ég virðist hafa hitt á óskastund. Vesen mitt við komuna til Rúmeníu var samt í krúttlegri kantinum og jók mér æðruleysi auk þess að sýna mér að Rúmenar eru hið vænsta fólk.

Ferðin frá Ungverjalandi

Ferðin til Rúmeníu kom óvænt upp á. Ég var á leið til Novi Sad í Serbíu þar sem ég á kærar vinkonur en vegna viðgerða á lestarkerfi Serbíu virtist skásti kosturinn að taka langan krók, frá Ungverjalandi til Rúmeníu.

Vopnaðir verðir beggja landamæranna lásu vegabréf mitt spjaldanna á milli enda líklega mikið um flóttafólk í lestum þarna á mörkum Schengen. Rúmönsku lestarvagnarnir voru komnir til ára sinna og hvergi hægt að fylgjast með hvernig ferðinni miðaði auk þess sem oft var erfitt að sjá nöfn lestarstöðvanna. Framan af hafði ég engar áhyggur enda óþekkt að lestir séu of snemma á ferðinni. En þegar komið var að komutíma, 21:35, fór ég að fylgjast gjörla með og þegar ekkert bólaði á borginni spurði ég sessunauta mína hverju það sætti.
-Timisoara, sögðu þau, þar vorum við fyrir klukkutíma.

Af þessu lærði ég tvennt; að sú fimmtándu aldar uppfinning sem ég hef á úlnliðnum er ónæm fyrir tímabeltisbreytingum og að í gamalsdags lestum er gott að nota google maps.

Vingjarnlegur lestarvörður með veglegt kaskeiti ráðlagði mér að hoppa af í Lagoj og taka næstu lest tilbaka. Ég upplýsti hostelið um seinkun, axlaði pokann og beið eftir úti við dyr eftir Logoj. Lestarvörðurinn sem labbaði hjá sagði mér í forbifarten að ég væri rosalega heppinn af því að lestinni hefði seinkað um níutíu mínútur og vandamálið væri úr sögunni. Ég fór því ekki út í Lugoj sem kom lestarverðinum á óvart þegar hann átti aftur leið um. Í ljós kom að ensk tunga hefur ólíka merkingu í munnum okkar. Næstu lest hafði seinkað og heppni mín fólst í því að þurfa að bíða skemur í Lugoj.

En nú sat ég og stefndi hraðbyri til Carabenes. Í hamfarahyggju á hæsta stigi hóf ég að ímynda mér staðinn eins og hvert annað Króksfjarðarnes þar sem örugglega væri ekkert hótel.

Í fyrra sæti mínu hafði ég fylgst ég með vináttu rúmanskrar, þýskrar og indverskrar stúlku þróast en þær má sjá á forsíðumyndinni. Þótt ég sé ekki nógu dugleg við að glápa ofan í símann minn er ég afar fær í að fylgjast með því sem fram fer á milli fólks. Ég ákvað því að fara og biðja nýbakaðar vinkonurnar um hjálp og huggun. Eftir hin hefðbundnu ”Wow, Iceland” viðbrögð tókust þrír símar á loft í leit að upplýsingum um Carabenes.

Á eyðilegri brautarstöðinni sá ég engan hraðbanka en ungur maður gaf mér tvo plastseðla, tuttugu leu. Þar sem ég beið eftir leigubíl birtist enginn annar en lestarvörðurinn, vinur minn, ansi hreint huggulegur í borgaralegum klæðum og sagði mér engu að kvíða, bíll myndi sækja mig innan fimm mínútna. Sjálfur reyndist hann vera bílstjórinn og ók mér á hótel og bar meira að segja pokann upp alla stigana. Hræódýrt hótelið var eins og önnur hótel sem innfæddir velja fyrir mig. Mér fannst ég komin aftur til daga kommúnismans.

Allt var þetta hin skemmtilegasta reynsla.

Úthvíld að morgni skildi ég ástæðu góðmennskunnar sem mér var sýnd. Samkvæmt Pay it forward fyrirkomulaginu átti ég hana skilið. Í vinnu með ferðamönnum norður í Mývatnssveit hef ég iðulega lagt lykkju á leið mína og jafnvel skotið yfir þá skjólshúsi. Í fyrrasumar bjargaði ég meira að segja holdvotri, rúmanskri bakpokakonu frá bráðum bana í næturkulda norðanáttarinnar. Karma mitt er gott þegar kemur að ferðalögum.

Óvænt í menningarborg Evrópu

Timisoara, ein menningarhöfuðborga Evrópu 2023.

Fyrsta deginum á dásamlegri Timisoaraborg eyddi ég í félagsskap Tomasar, kórsyngjandi verkfræðings frá Wiesbaden sem eyðir eldri árunum í að ferðast farangurslaus um heiminn. Hann heimsækir til dæmis alltaf menningarhöfuðborgir Evrópu sem er góð hugmynd fyrir alla að gera.

Sjálf hafði ég ekki hugmynd um að ég hefði valið menningarhöfuðborg en það fór ekki á milli mála enda borgin nýuppgerð og hvers kyns listræn stefnumót á hverju horni. Við Tomas eltum jazzviðburði en síðar sá ég merkilega þjóðdansahátíð með mikilfenglegum atriðum víða úr austurálfunni og enn austar að.

Einn hópinn hafði ég rekist á fyrr um daginn þegar hann var kynntur á Friðartorgi borgarinnar. Ég sat þar í klukkutíma og hlustaði á ræðuhöld áður en hópnum var hleypt á sviðið. Ég þekki aðeins eitt orð í úkraínsku, diakuyu, takk, en í rúmönsku túlkuninni gat ég getið í eyðurnar. Þvílíkur léttir að vera komin á rómanskt málsvæði og geta reiknað út merkingu orðanna. Flytjendur á folklore-hátíðinni voru til dæmis ýmist nefndir Grupol eða Ansumbul. Grupol skildi ég strax en var nokkuð lengi að fatta að Ansambul er nokkuð nákvæm stafsetning á Ensamble.


Ansambul frá Úkraínu bíður eftir að fara á svið á Friðartorginu.

Í rósagarðinum um kvöldið fylgdust hundruð áhorfanda með konum þeytast í hringi með hendur á mjöðmum, hóandi, tjúandi, trillandi og burrandi samkvæmt balkanskri tónlistarhefð á meðan karlar slógu sér á lær í glæsispörkum. Þvílík fótavinna í dansinum og handavinna í búningum sem byggja á aldagömlum hefðum. Þvílík frásagnargleði, þvílíkt fjör og kraftur, agi og stolt. Ég elska þetta, ekki síst þegar því bregður fyrir í Eurovision. Svona er álfan okkar. Um daginn sá ég Ameríkana spyrja á Quoara-síðunni þar sem fólk spyr hvert annað um hvað eina: Af hverju á Evrópa enga menningu? Kannski var spyrjandinn sá sami og spurði hvers vegna Bretar tali ensku vitlaust.

Grúppía. Dansarinn er frá hinni fornu rúmönsku borg Constanza. 

Áhugaverðast þótti mér þó safnið um Byltinguna 1989, ekki vegna tæknilausna og smartheita heldur ótrúlega mikilla upplýsinga. Fólki með vesturlenskt athyglisspan er ekki ráðlagt að heimsækja löndin hér um slóðir.

Hún hófst í Timisoara 16. desember 1989, byltingin sem leiddi til aftöku harðstjórahjónanna Ceaușescu annan dag jóla sama ár. Ég man engan heimsögulegan viðburð betur enda fylgdist ég með ótrúlegri atburðarásinni í fréttum á klukkutíma fresti þar sem ég undirbjó friðsælt jólaboð. Ástæða hins mikla áhuga míns var sú að árið áður hafði ég dvaldið í Ungverjalandi, rétt handan rúmönsku landamæranna, og vissi að þetta þá svo framandi land var ekkert svo Fjarskistan.

26. desember 1989 var örlagaríkur dagur í lífi harðstjórans Ceaușescu.

Endurfædd á Reborn hostelinu

Reborn hostelið er kapítuli út af fyrir sig. Hér gistum við tólf gestir í miðborg Timisoara og finnst við vera heima enda leggja Raoul og Petra sig fram við að greiða götu allra. Þau hafa til dæmis verið mér innan handar við að finna ferð til Novi Sad á blabla-appinu (sambærilegt samferda.is) eða með shared taxi. Ég var mjög hissa samgönguleysinu á milli nágrannalandanna Rúmeníu og Serbíu en svo rifjaðist upp fyrir mér hversu snúið getur verið að komast á milli Íslands og Grænlands, eða bara Færeyja.

Hinn mexikóski José smíðar skartgrip á Grethel á Reborn.

Ferðin til Serbíu með shared taxi var áhugaverð, ekki síst vegna eins og hálfs tíma töf við landamærin þar sem fjöldi Carbidge Run 2023 bíla biðu og hollenskir farþegar þeirra skemmtu sér við skrílslæti. Landamæravörðum var ekki skemmt.

Rúmenum þakka ég góð kynni og enda frásögn mína á samtali við leigubílstjórann sem ég hitti fyrsta daginn.
-Wow, Iceland, sagði hann, þangað ætla ég að flytja.
-Af hverju?
-Af því að þar eru fimm konur á hvern karlmann.
-Ö, nei…
-Jú, ég sá það í sjónvarpinu.


Ég ferðast meðal annars til að skilja mannkynssöguna. Á byltingarsafninu eru helstu alheimsatburðir ársins 1957, fæðingarárs míns, raktir.