Hvaða námskeið á ég að velja?

Námskeiðslýsingar eiga við opin námskeið Stílvopnsins en öll námskeið er hægt að fá sérsniðin í ýmsum útgáfum fyrir ólíka hópa.

Kennari á öllum námskeiðum er Björg Árnadóttir 

Nánari upplýsingar: bjorg@stilvopnid.is og í síma 8996917

SKAPANDI SKRIF

Hópurinn er leiddur í gegnum helstu þætti sagnaritunar með stuttum æfingum. Mikil vinnusemi ríkir á þessu hnitmiðaða námskeiði og í lok þess hafa allir skrifað drög að sögu. Námskeiðið er ætlað jafnt byrjendum sem lengra komnum enda geta allir lært af öðru fólki. Hvorki er farið sérstaklega í ljóðlist né leikritun en þeir sem fást við slík skrif geta oft aðlagað viðfangsefni sín að sagnaritunaráherslu námskeiðið.

Námskeiðið er 12 klukkustundir. 

HETJUFERÐIN – SKAPANDI SKRIF

Hetjuferðarnámskeiðið er eins og nafnið gefur til kynna hetjuferð. Fjallað er um sömu þætti sagnaritunar og á námskeiðinu Skapandi skrif en frásagnarlíkanið The Hero´s Journey býður þátttakendum að takast á hendur ævintýraferð. Námskeiðið er í raun sköpunarsmiðja þar sem lögð er áhersla á að skrifa samkvæmt þekktri frásagnaraðferð The Hero´s Journey (stundum nefnd monomyth eða frumgoðsagan). Hetjuferðina er að finna í goðsögum og ævintýrum allra tíma, samtímakvikmyndum og bókmenntum en hún lýsir einnig ferðalagi okkar allra um eigin líf. Námskeiðið sækir fjölbreyttur hópur fólks og hetjuferðin kemur flestum á óvart enda vinna höfundar jöfnum höndum með texta og tilfinningar. Hugmyndir og aðferðir Joseph Campbell, Christopher Vogler og Paul Rebillot eru hafðar til hliðsjónar á námskeiðinu.

Nánar um Hetjuferðina
Viðtal um Hetjuferðina

Skapandi skrif og Skapandi skrif – ferð hetjunnar vinna vel saman en hvorugt er undanfari hins. Margir sækja bæði námskeiðin. 

Námskeiðið er 16 klst. 

ENDURMINNINGASKRIF

Notaðar eru margvíslegar kveikjur sem vekja minningar og kynntar ýmsar aðferðir til að skrá minningar. Rætt er um dagbækur, minningargreinar, ævisögur, sjálfsögur og fleiri form endurminningaskrifa. Sum koma einkum til að rifja upp liðna atburði og endurvekja gamlar tilfinningar en öðrum finnast endurminningaskrifin tilvalin leið til að byrja að skrifa. Enn önnur eru langt komnir með  verk byggð á eigin endurminningum eða annarra. Námskeiðið er þó ekki fagnámskeið um ævisagnaritun.

Fólk á öllum aldri sækir námskeiðið enda þurfa minningar ekki að vera gamlar. Aldursbil þátttakenda getur verið fimmtíu ár sem gefur samverunni aukið gildi. Á þessu námskeiði er ekki skrifað jafnt og þétt eins og á öðrum námskeiðum Stílvopnsins heldur eru mörg verkefnanna þannig að hver og einn getur valið hvort hann leysir þau og hvenær. Einnig má deila eldri skrifum.

Námskeiðið er 16 klukkustundir. 

SKAPANDI SKOÐANA- OG ÞEKKINGARSKRIF

Þátttakendur þjálfast í að skrifa greinar eða færslur um þekkingu sína og viðhorf þannig að skrifin höfði til hins almenna lesenda. Þátttakendum er hjálpað að finna viðfangsefni sem brenna á þeim, afmarka þau og aðlaga að ólíkum miðlum. Höfundar nálgast viðfangsefni sín skref fyrir skref og í lok námkeiðs hafa allir skrifað drög að grein. Eðlilega verða miklar og heitar umræður um samfélagsmál á þessu námskeiði enda gefst þátttakendum kostur á að spegla skoðanir sínar, reynslu og þekkingu í öðru fólki.

Námskeiðið sækir bæði fólk sem lítið hefur skrifað og þau sem eru alvön að birta skrif sín, til dæmis háskólamenntað fólk sem vill ná betur til hins almenna lesanda.

Námskeiðið er 16 klst

SKÖPUNARSMIÐJA

Smiðjan er ætluð þeim sem vilja takast á við áskoranir lífsins með skapandi aðferðum. Hún byggir á hugmyndum og kenningum um mikilvægi flæðis í sköpun og lífshamingju. Unnið er með aðferðum lista, leiddrar hugleiðslu, félagsörvunar og samtala, íhugunar og ritúala. Markmiðið er ekki að skapa listaverk heldur að virkja sköpunarhæfni sína á leið til frekari þroska.

Auk eigin aðferða sem kennarinn hefur þróað í kennslu og skapandi vinnu í áratugi eru notaðar aðferðir Paul Rebillot: The Call to Adventure – Bringing the Hero´s Journey to Daily Life og aðferðir Juliu Cameron: The Artist´s Way – A spiritual Path to Higher Creativity.

Sköpunarsmiðjan er 12 klst.

KENNSLUFRÆÐI RITLISTAR

Námskeiðið fjallar um skapandi og valdeflandi aðferðir í ritlistarkennslu. Það byggir á fyrirlestrum um aðferðafræði ritlistarkennslu sem Björg Árnadóttir, rithöfundur og MA í menntunarfræðum hefur lært og þróað á rúmlega þrjátíu ára kennsluferli; innlögnum verkefna, eigin skrifum og umfjöllun um úrlausnir. Í lok hvers dags er rætt um hvernig nota má verkefni dagsins við kennslu á mismunandi skólastigum.

Að námskeiði loknu hafa þátttakendur fengið innblástur við eigin skrif og til að nota ritlist í móðurmálskennslu. Lengd fer eftir þörfum námskeiðskaupa. Einnig er hægt að fá fyrirlestur um efnið.

Námskeið Stílvopnsins eiga það sameiginlegt að:

  • þátttakendur hafa mismikla reynslu af að skrifa
  • lögð er áhersla á lærdómsumhverfi þar sem hver lærir af öðrum og að fólk finni eigin viðfangsefni og höfundarödd
  • þátttakendum er hjálpað við að komast yfir ótta og stíflur
  • kennslan hverfist um þá texta sem verða til á námskeiðinu og eru í raun sjálft kennsluefnið
  • hver og einn ákveður hversu mikinn tíma og metnað hann leggur í skrifin og engin heimavinna er því lögð fyrir
  • nota má hvaða skriffæri sem er.
Scroll to top