UPPLESTUR Í UNGÓ (Dalvík, 27. mars 2023)
Mér datt í hug á námskeiði mínu í skapandi skrifum í Bergi nú um helgina að segja ykkur frá því hvernig kona lendir í að verða ritlistarkennari en um árabil verið aðalstarf mitt að leiðbeina almenningi við skrif um ímyndaða heima skáldskaparins sem og um sjálfan veruleikann.
Öfugt við aðrar listgreinar á kennsla í ritlist sér afar stutta sögu. Hérlendis halda sum sem skrá sig á námskeið í skapandi skrifum að þau muni læra þar skrautskrift og þegar ég auglýsti fyrstu ritlistarnámskeiðin mín fyrir þrjátíu og fimm árum lögðu menn lykkju á leið sína til að segja mér að ég hlyti nú, vænan, að vita að ritlist verður ekki kennd. Hún sé í genunum.
Í dag er námsbraut í ritlistlist hins vegar orðin vinsælasta námið við Háskóla Ísland, þ.e.a.s ef vinsældir náms eru mældar í því hversu mörgum er neitað um pláss. Öll virðumst við vilja verða rithöfundar þótt enginn vilji lengur eiga bækur.
Upphaf ritlistarkennslu má rekja til stjörnustríðs Bandaríkjamanna og Rússa um miðja síðustu öld. Þegar Bandaríkjamenn áttuðu sig á að velmenntaður almúgi væri forsenda landvinninga í geimnum var árið 1954 samþykkt byltingarkennd menntastefna sem kvað á um jafnan rétt allra til náms.
Meðal nýmæla í námskrá var mikil áhersla á ritun og tjáningu á öllum skólastigum. Þannig urðu kennslufræði ritlistar til og þannig réðust örlög mín. Þrjátíu árum eftir að bylting hófst í bandarískum skólum var ég nýútskrifaður myndlistarkennari og nýflutt norður til Lapplands í Svíþjóð. Þegar ég kynnist þar hópi höfunda sem voru að gera tilraunir með að kenna sitt fag hoppaði ég á vagninn og hef setið þar síðan.
Ég þótti alltaf glúrinn penni enda vandist ég frá unga aldri að setja hugsanir mínar á blað til að þær úldnuðu ekki innan í mér. En í samanburði við alvöru rithöfundana í minni ætt fannst mér ég ekki nógu gáfuð til starfans. Hins vegar hafði ég aldrei heyrt að myndlistarmenn reiddu vitið í þverpokum og sótti því um skólavist í Myndlista- og handíðaskólanum.
Þar lærði ég mikilvæga lexíu, þá að við stundum ekki listir AF ÞVÍ af við ERUM gáfuð, fróð og frjó heldur til þess AÐ VERÐA ÞAð. Gáfur eru ekki föst stærð heldur eru hæfileikar vöðvar sem vaxa við þjálfun. Listsköpun er umbreytandi rannsóknarferli á okkur sjálfum og umhverfi okkar.
Myndlistin færði mér mikilvægasta atvinnutæki rithöfundarins – að sjá og taka eftir. Taktu eftir því sem þú tekur eftir, sagði meistari Þorvaldur Þorsteinsson iðulega og veitti mér með þeim orðum leyfi til að þykja það sem ég tek eftir vera merkilegt. Áður hafði mér fundist það sem aðrir tóku eftir merkilegra, einkum ef það voru karlmenn.
Í kennaradeild MHÍ lærði ég kennslufræði myndlistar sem ég yfirfærði síðar á ritlistina. Ég lærði það mikilvægasta í kennslu allra skapandi greina – að fá fólk til að vinna. Besta leiðin til að byrja að skrifa er nefnilega sú AÐ BYRJA að skrifa. Ég hef ekki heyrt af annarri aðferð.
Ritlistarkennari þarf fyrst að veita verðandi höfundum frelsi til að vera í flæðinu og umfaðma allt sem upp úr sálarfylgsnunum skýst en síðan þarf hann að benda á mikilvægi þess að meitla textann – að grisja – að reyta illgresið úr beði orðanna til að skrautjurtirnar fái notið sín.
Nemendur mínir gægjast ofan í heim skáldskaparins, ferðast um sammannlegan sagnaarf og dulvitund, grúska í eigin tilfinningum, grafa í gamalli reynslu og kanna hug sinn til líðandi stundar. Ég hef gefið mörgum kjark til að gefa skrif sín út þótt útgáfa sé mér ekkert keppikefli. Ég leyfi líka fólki að njóta þeirrar unaðslegu iðju að skrifa án þess að hafa á sér svipu útgáfunnar. Orð rata til lesenda þótt þau séu ekki endilega geymd á milli harðspjalda. Og stundum getur hreinlega verið meiri hreinsun í því að brenna skrif sín en að birta þau.