Sjálfskoðun í skapandi ferli orðanna (sumarnám við FÁ)

SJÁLFSKOÐUN Í SKAPANDI FERLI ORÐANNA

Í sumar býður Fjölbrautaskólinn við Ármúla fimm eininga áfanga í skapandi skrifum í staðbundnu námi (ÍSLE2RS05). Áfanginn er öllum opinn.  

Kennari: Björg Árnadóttir, rithöfundur og ritlistarkennari

Dagsetningar: 15. júní – 6. júlí 2020.

Tímasetning: Kennt á mánudegi til fimmtudags frá kl. 9:00 til 12:30.

Tímafjöldi: Áfanginn er 5 einingar, 45 klst. í staðkennslu.

Nemendafjöldi: Hámark 20.

Efniskostnaður: 5.000 krónur (eða efniviður í eigu nemenda).

Innritunargjald: 3.000 krónur (endurgreitt til nemenda sem standast áfangann).

Innritun fer fram með þeim hætti að umsækjandi sendir eftirfarandi upplýsingar á netfangið sumarnam@fa.is: Nafn, kennitala, netfang, símanmér, nafn áfanga. 

Stutt lýsing: Í áfanganum er unnið með skapandi ferli ritlistar og sjálfskoðun höfunda með aðferðir hetjuferðarinnar (The Hero´s Journey) að leiðarljósi. Nemendur kynnast hugmyndafræði hetjuferðarinnar með aðferðum ritlistar en einnig myndlistar, leiklistar og félagsörvunar (sociometry).

Markmiðið: Að nemendur verði færari um að tjá hugmyndir sínar í rituðu máli. Áherslan er fremur á skapandi ferli ritunar og sjálfskoðun höfundanna en endanlega útkomu skrifanna. Þessi áhersla á skapandi ritunarferlið hjálpar höfundum að komast yfir hugsanlegan ótta við að skrifa en einnig að finna viðfangsefnin sem blunda hið innra, bestu nálgunina við viðfangsefnin og eigin, persónulega höfundarödd. Í skapandi upphitunaræfingum eru notaðar aðferðir leiklistar, myndlistar og félagsörvunar ekki síður en ritlistar með það fyrir augum að hrista saman hóp sem er tilbúinn að vinna saman að listsköpun, deila verkum sínum með öðrum og skoða verk hinna með uppbyggilegum aðferðum. Nemendur læra að greina hina fornu hetjuferð goðsagnanna í bókmenntun og kvikmyndum nútímans, að skrifa og skapa eigin hetjuferðir og að leita þess sjálfskilnings sem höfundar þarfnast til að fara í gegnum þroskahring hetjuferðarinnar í daglegu lífi.

Annað: Námskeiðið byggir á lýsingu á skapandi skrifum í námskrárgrunni mmr.: ,,.. að styrkja sjálfsmynd nemenda gagnvart tungumálinu og efla færni þeirra í að nota það í listsköpun. Lögð er áhersla á leik, frelsi, flæði og spuna. Við úrvinnslu texta sem skapast í leiknum er lögð áhersla á að nemendur þjálfist í að velja og hafna úr eigin höfundaverki og þróa skrif sín nánar. Flutningur texta er ríkur þáttur í ferlinu ásamt jafningjamati en nemendur eru hvattir til að leita sér aðstoðar og vinna saman.


Hvenær?
Date(s) - 15.6.2020 - 6.7.2020
9:00 - 12:30

Scroll to top