Ég heiti Björg Árnadóttir og kenni öll námskeið Stílvopnsins. Ég er rithöfundur, ritlistarkennari, myndlistarkennari og blaðamaður með MA-gráðu í menntunarfræðum skapandi greina. Þótt flest námskeiðanna séu haldin á höfuðborgarsvæðinu reyni ég þjóna landsbyggðunum líka – látið mig endilega vita af áhuga í byggðalagi ykkar. Í áranna rás hef ég tekið þátt í fjölda erlendra samstarfsverkefna á sviði skapandi lista og er nú farin að bjóða Íslendingum í ritbúðir á framandi slóðum. Auk þess tek ég að mér yfirlestur á hvers kyns textum.

 

Námskeið

Hvaða námskeið Stílvopnsins á ég að velja?

Viltu skálda sögur?
Skapandi skrif
Hetjuferðin

Viltu skrifa um veruleikann?
Ritun endurminninga
Skrifað um veruleikann - netnámskeið
Greinaskrif fyrir félagasamtök og fyrirtæki - sérsniðið

Viltu skrifa um ferðalög og framandi staði?
Ritbúðir erlendis

Viltu fara í innra ferðalag?
Hetjuferðin - ritlistarnámskeið
Tólf spora ævintýrið - sköpunarsmiðja

 Viltu læra um kennslufræði ritlistar?
Kennslufræði ritlistar
Félagsörvun - að skapa örugg rými 

SÖGUR

Skapandi skrif (12 klst.)

Hópurinn er leiddur í gegnum helstu þætti sagnaritunar með stuttum æfingum og lengri. Mikil vinnusemi ríkir á þessu hnitmiðaða og skemmtilega námskeiði og í lok þess hafa öll skrifað drög að eða jafn fullgerða smásögu.

Námskeiðið hentar jafnt byrjendum sem lengra komnum enda lærum við öll af djúpu og nærandi sköpunarferli í félagsskap annarra.

Námskeiðið er oftast haldið um helgi. 

 

Hetjuferðin - The Hero’s Journey (16 klst.)

Farin er Hetjuferð; kafað í hugmyndafræði og frásagnarlíkan þessarar sígildu aðferðar sem stundum er kölluð frumgoðsagan (the monomyth). Sum kjósa að spinna skáldaðan söguþráð en önnur skoða og skrifa um hetjuferðir eigin lífs. Þegar vel er að gáð má finna ferð hetjunnar í flestöllum bókum og bíómyndum en einnig í margvíslegri meðferðarhugmyndafræði (t.d. í bata- og sorgarferlinu og tólfsporaaðferðinni).

Halda mætti að skrif um Hetjuferðina séu formúluskrif en svo er ekki af því að ólík áhugasvið þátttakenda auka dýpt námsefnisins: ,,Alltaf var eitthvað um það bil að fara að gerast!”

Hugmyndir goðsagnafræðingsins Joseph Campbell, handritshöfundarins Christopher Vogler og leikhússmannsins Paul Rebillot eru hafðar til hliðsjónar á námskeiði sem er í senn auðskilið og djúpt.

Námskeiðin Skapandi skrif og Hetjuferðin vinna vel saman en hvorugt er undanfari hins og því hægt að taka þau í hvorri röðinni sem er. Fólk sækir oft bæði námskeiðin.

SKRIF UM VERULEIKANN

Ritun endurminninga (16 klst.)

Notaðar eru ólíkar kveikjur sem vekja minningar og kynntar ýmsar aðferðir til að skrá þær. Rætt er um dagbækur, minningargreinar, ævisögur, sjálfsögur, viðtöl, hlaðvörp og fleiri form endurminningaskrifa. Sum koma einkum til að rifja upp liðna atburði og endurvekja gamlar tilfinningar. Öðrum finnast endurminningaskrifin tilvalin leið til að byrja að skrifa. Enn önnur eru langt komnir með verk byggð á eigin endurminningum eða annarra. Námskeiðið er þó ekki fagnámskeið um ævisagnaritun heldur notaleg samvera fólks á öllum aldri sem langar að líta um öxl. Hið breiða aldursbil gefur námskeiðinu aukið gildi.

Skrifað um veruleikann - netnámskeið (12 klst.)

Rithöfundar skrifa ekki bara um skáldaða heima heldur líka um heiminn eins og hann birtist þeim. Flest þurfum við einhvern tíma að skrifa um veruleika lífs okkar og starfs sem er mjög valdeflandi iðja.

Umfjöllunarefni námskeiðsins eru allt um kring enda skrifa þátttakendur um skoðanir sínar, reynslu, upplifun og þekkingu – og víkka reynsluheiminn með skrifunum. Unnið er með hið þrautreynda greinarform. Námskeiðið fjallar um leiðir til að ná til hins almenna lesanda. Það er ætlað öllum almenningi en hjálpar einnig fræðafólki að ná til víðari lesendahóps. 

Greinaskrif fyrir félagasamtök og fyrirtæki er styttri, staðbundin og sérsniðin útgáfa af námskeiðinu (3 klst.)

Ferðaskrif: minningar, sögur, fróðleikur

Þátttakendur eru fólk á ferðalagi, hérlendis eða erlendis. Stundum er námskeiðið sérsniðið fyrir hópa en stundum opið almenningi. Margvíslegar ritlistaræfingar eru kynntar til að þátttakendur sjái umhverfið í nýju ljósi, skoði og skrifi um það sem fyrir augu og eyru ber og leiti dýpri þekkingar um umfjöllunarefni sín. Einnig eru kynntar leiðir til að breyta stuttum færslum í lengri skrif (lengd námskeiðs mismunandi eftir aðstæðum hverju sinni).

Næsta námskeið á Indlandi haustið 2025 .

SKÖPUN

Tólf spora ævintýrið - sköpunarsmiðja (12 klst.)

Smiðjan er ætluð þeim sem vilja takast á við áskoranir lífsins með skapandi aðferðum. Hún byggir á kenningum um mikilvægi flæðis í sköpun og lífshamingju. Unnið er með aðferðum listanna, leiddrar hugleiðslu, félagsörvunar og samtala, íhugunar og ritúala. Markmiðið er ekki að skapa listaverk heldur að virkja sköpunarhæfnina til aukins þroska.

Í smiðjunni er stuðst við þrjár þekktar sjálfskoðunarleiðir: Tólfsporaleiðina, Hetjuferðina (Paul Rebillot: The Call to Adventure – Bringing the Hero´s Journey to Daily Life) og Leið listamannsins (Julia  Cameron: The Artist´s Way – A spiritual Path to Higher Creativity.)

Ekki þarf að þekkja aðferðirnar fyrirfram. Mörg taka bæði ritlistarnskeiðið um Hetjuferðina og Tólf spora ævintýrið.

KENNSLUFRÆÐI: AÐFERÐIR OG HUGMYNDIR

Kennslufræði ritlistar (sérsniðið fyrir hópa)

Námskeiðið fjallar um skapandi, valdeflandi og inngildandi aðferðir í ritlistarkennslu. Það byggir á ðferðafræði ritlistarkennslu sem Björg Árnadóttir, rithöfundur og MA í menntunarfræðum hefur þróað á löngum kennsluferli; innlögnum verkefna, eigin skrifum og umfjöllun um úrlausnir. Námskeiðið hentar kennurum á öllum skólastigum. Þátttakendur fá innblástur við eigin skrif og til að þróa aðferðir ritlistar í móðurmálskennslu (lengd eftir aðstæðum). Tilvalið fyrir starfsdaga kennara.

Námskeið Stílvopnsins eiga það sameiginlegt að:

  • þátttakendur eru á öllum aldri og hafa mismikla reynslu af skrifum
  • lögð er áhersla á lærdómsumhverfi þar sem hver lærir af öðrum
  • höfundar vinna með eigin viðfangsefni og höfundarödd
  • þeim er hjálpað við að komast yfir ótta og stíflur
  • kennslan hverfist um þá texta sem verða til á námskeiðinu
  • engin heimaverkefni eru lögð fyrir þótt öllum sé frjálst að skrifa af hjartans lyst á milli skipta.

Félagsörvun: Að skapa örugg rými (sérsniðið fyrir hópa)

Hugtakið ,,að skapa örugg rými“ er gjarnan notað í hópvinnu. Ákveðnar aðferðir tryggja að þátttakendur geti óttalaust viðrað hugmyndir sínar og skoðanir og þannig miðlað og móttekið af skilningi og virðingu. Örugg rými verða ekki til að sjálfu sér heldur ef lögð er vinna í að skapa þau. Námskeiðið er ætlað þeim sem taka þátt í eða stjórna umræðum og samvinnu. Kynntar eru skapandi og skemmtilegar leiðir til að tengja fólk og ýta undir traust samskipti og gjöfular umræður  (6 klst). Námskeiðið þarf að panta.