Nánar um hetjuferðina

HETJUFERÐIN (THE HERO’S JOURNEY)

Þekktasta bókin sem skrifuð hefur verið um hetjuferðina heitir The Hero with A Thousand Faces (1949). Höfundur hennar er hinn þekkti bandaríski bókmennta- og goðsagnafræðingur Joseph Campbell (1904 – 1987) og bókin fjallar um víðfrægar kenningar hans um goðsagnarlegt ferðalag hetjunnar til aukins þroska. Til er í íslenskri þýðingu bókin Ferð höfundarins þar sem Christopher Vogler sýnir hvernig sögur heims og kvikmyndir fylgja í stórum dráttum hefð og fyrirmyndum goðsagnanna.

Í ritsmiðjunni  um hetjuferðina er stuðst við hugmyndir og aðferðir ofangreindra höfunda en námskeiðið er að öðru leyti aðlagað þörfum hópsins hverju sinni. Ekki þarf að koma með fastmótaðar hugmyndir um umfjöllunarefni enda eru notaðar margvíslegar kveikjur til að hjálpa þátttakendum að fæða hugmyndir. Kveikjurnar eru meðal annars sóttar til Bandaríkjamannsins Paul Rebillot og sköpunarsmiðju hans The Call to Adventure. Námskeiðið er þó hreinræktuð ritlistarsmiðja og í lok þess hafa höfundar skissað upp eða skrifað hetjuferðarsögu. Sum nota ritsmiðjuna til að skrifa um ímyndaðar hetjur en önnur leita hetjunnar hið innra og ferðalags hennar til aukins þroska.

Kennarinn Björg Árnadóttir hefur margvíslega menntun á sviði lista auk fjörutíu ára kennslureynslu sem ritlistar-, tjáningar- og myndlistarkennari. Hún tók þátt í Evrópuverkefninu HIT – Heroes of Inclusion and Transformation þar sem þátttakendur frá sex Evrópulöndum aðlöguðu hetjuferðarhugmyndina að kennslu sinni í ólíkum greinum. HIT-verkefnið var valið af EPALE, vefgátt fullorðinsfræðslu í Evrópu, sem eitt tuttugu og átta afburðaverkefna ársins 2019.

Scroll to top