Interrail

Stefnumót við Ungverjaland. Ferðaskrif Bjargar #6

Eftir fjóra dýrðardaga í Búdapest er ég komin langt frá skarki stórborganna. Ég dvel á friðuðum hluta ungversku sléttunnar, hinni svokölluðu Pusztu, og gefst loks tóm til að skrifa. Þó ætla ég að bíða með að skjalfesta ferðir til mínar Bielsko-Biala, Prag, Bratislava, Banska Bystrica og Banska Stinanca þar til ég kem til Novi Sad enda tengjast erindi mín til allra þessara borga að umtalsverðu leyti.

Mér hefur reynst furðu erfitt að halda netdagbók enda áttaði ég mig ekki á því að ég yrði svona upptekin við að upplifa alla daga.

Ég fer á milli staða sem ég hef heimsótt áður og á stefnumót við fólk sem ég þekki misvel en fyrst og fremst mæli ég mér mót við sjálfa mig á ýmsum aldurskeiðum. Samskipti við fólk eru að sjálfsögðu tímafrek en seinlegast er samtalið við sjálfa mig. Það er krefjandi en um leið heilnæmt að gefa sér tíma til að líta um öxl, muna og minnast.

Þú heldur kannski að það sé tómt streð að flakka um með lestum og gista á hostelum og heimasófum en mér er það hins vegar hin mesta slökun. Ég er afslappaðri en ég man mig lengi.

Ein ástæða þess að ég ákvað að fara þessa ferð á sextugasta og sjötta aldursári var sú að mér fannst ég vera að missa af lestinni.  Að minnið væri að gefa sig og toppstykkið orðið hriplekt enda varð ég sífellt að fletta upp öllu sem ég hef alltaf vitað, rifja upp nöfn afkomenda minna og rekja slóð eigna minna sem ég hef einhvers staðar glatað.

Auk þess stóð ég mig að tauti við sjálfa mig eins og ég væri hvert annað gamalmenni. Seint kvöldið áður en ég lagði í hann heyrði ég sjálfa mig segja ,,ég sef þá bara í þvottavélinni” þegar saman sló hugsunum um óþveginn þvott og svefninn sem ég sá fram á að þurfa að taka út í flugvélinni.

Á mánaðar flakki hef ég ekki lent í neinu klandri fyrir utan það að missa af einni lest. Ég hef engu týnt og engu gleymt nema náttúrlega löngum staðarnöfnunum hér austanmegin í álfunni sem samsett eru úr samhljóðasúpu utan um einn sérhljóða. Minnið finn ég taka  hraðskreiðum framförum, ekki síst hér úti á Pusztunni þar sem hljóðheimurinn er hundgá, hanagal og söngur svalanna á veröndinni sem ég eigna mér sem skrifsstofu.

Skrifstofan á Puzstunni. Svölurnar syngja í loftbitunum.

Í húsinu á sléttunni ræður leirlistakonan Jóna Guðvarðardóttir ríkjum. Við höfum ekki hist þau fjörutíu ár sem hún hefur verið með annan eða báða fætur hér í Ungverjaland og þekktumst í raun ekkert nema í gegnum böndin sem hnýta nemendur og kennara gamla Myndlista- og handíðaskólans saman. Þegar Jóna frétti af ferðalagi mínu var hún svo vinsamleg að bjóða mér til sín á Puzstuna og daglangar samræður undir Ungverjalandsól voru fljótar að þróast í vinskap. Lífið er fallegt, líkt og vináttan.

                   
Jóna við Alþjóðlega Keramíksafnið, eitt aðdráttarafla Kecskemét sem einnig er fæðingarborg tónskáldsins Zoltan Kodaly.  

Nöfn Jónu Guðvarðardóttur og János Probstner, nýlátins eiginmanns hennar, eru stór í ungverskri leirlistasögu ekki síst vegna Alþjóðlega keramíkssafnsins í Kecskemét sem János stofnaði og þau hjónin ráku síðar í sameiningu.

Hér á bæ eru líka staddir mennirnir tveir á myndinni að ofan, Péter og László, þekktir leirkerasmiðir sem eru hér að nýta sér viðarbrennsluofn Jónu. Péter tengist Íslandi örlítið af því að hann kennir reglulega í Sierra Leone þar sem íslensku samtökin Aurora Foundation efla handverk og efnahag innfæddra undir merkjum slow-living.

Leirlist er list hæglætis og þolinmæði. Því fylgir friðsæld að fylgjast með eldi umbreyta jörðu í nytjahlut. Ég er í sjöunda himni yfir að fá að dvelja hér í Ungverjalandi í sjöunda sinn af því að hér hef ég fengið að sjá menningu og listir frá svo mörgum sjónarhornum.

Stefnumót í Búdapest

Búdapest, oft kölluð París austursins, er örugg borg og rólynd. Adagio Hostel Basilica stendur við Andrassy ut, eina breiðstræti borgarinnar. Þrátt fyrir annríki götunnar ríkirhæglætisandi innandyra enda merkir ítalska lýsingarorðið adagio ,,hægt“. Hostelið er á besta stað í bænum í grennd við tvö kennileiti, Basilíku heilags Stefáns og stóru sýnagógunni. Ég bókaði fjórar nætur með þriggja daga fyrirvara og nóttin kostar þrjú þúsund kall eins og gistingin í Póllandi, Tékklandi og Slóvakíu. Nú sé ég að í Balkanskaganum er  hægt að fá gistingu fyrir tíu evrur.

Frá hostelinu er örstutt að Dónárbökkum en ég var svo alsæl í fimmta hverfinu Pestarmegin að ég hafði ekki fyrir því að labba yfir einhverja brúna til Búda. Rétt við hostelið er hið skemmtilega Elísabetartorg þar sem ég sólaði mig í fysta sinn í ferðinni við róandi  klið gosbrunnanna. Því næst leitaði ég uppi mathöllina Eatalia  Budapest Downtown sem er svo miklu skemmtilegri en fínu veitingahúshverfin niðri við ána.

Inngangurinn að hinni skemmtilegu mathöll Eatlia Budapest Downtown,

Skyndilega gekk ég fram á virðulegt hús í nýklassískum stíl sem ég fann að ég þekkti. Upplýsingar úr innbyggðu leiðsagnarkerfi mínu vísuðu veginn í austurátt að dvalarstað mínum þegar blásið var til krísufundur í einu Evrópuverkefna minna fyrir áratug. Þar í kring eru margir kosher-staðir þar sem sem við borðuðum ísraelskum félögum okkar í verkefninu til samlætis. Hér rifjaðist upp öll sú misklíð sem orðið getur meðal Evrópuþjóða jafnvel þegar menningarlæsi er markmiðið. Svo leitaði hugurinn til hinnar merkilegu biblíódrama-aðferðar sem ég lærði í þessu verkefni og þyrfti að endurvekja til notkunar í umræðum um trúar- og lífsskoðanir.

Á gangi um Búdapest, en ekki síður hér á Pusztunni, minnist ég tveggja mánaðarlangra dvala fjölskyldu minnar í Ungverjalandi í boði austur-ungverskra listamannasamtaka árin 1988 og 1990. Á milli heimsókna gerðist heimsögulegur viðburður: Múrinn féll. Heilt hugmyndakerfi hrundi. Breytingar voru svo sláandi að ég gerði útvarpsþátt um efnið sem því miður hefur glatast bæði úr fórum mínum og Ríkisútvarpsins.

Stefnumót við tvær konur

Síðasta daginn í Búdapest mætli ég mér mót við tvær konur, mér ókunnar. Svo heppilega vildi til að báðar átti ég að hitta í næstu götu enda virðist almættið hafa ákveðið að gera ferð mína sem einfaldasta. Á Kamedeva-nuddstofunni veitti Myra mér kyngimagnað tantranudd. Ég skil ekki af hverju tantrahugleiðsla og -nudd, aðferðir sem  virkja kynorku líkamans á heilbrigðan hátt, eru ekki meira notaðar til að heila djúpstæð kynferðisleg trámu einstaklinga og þjóða.

Í Prag þekki ég viðskiptafræðing sem leiddist út í vændi þegar fyrirtæki hennar varð gjaldþrota. Vændið varð henni svo merkileg mannlífsstúdía að hún lauk sálfræðiprófi samhliða störfum og fór upp úr því að læra tantrahugleiðslu. Nú hjálpar hún Tékkum helming ársins en hinn helminginn heilar hún írsku þjóðina sem hún segir ákaflega „sexually traumatised.” Auk þess er  hún prímadonnan í leikhópi stéttarfélags fólks í kynlífsiðnaði í Prag sem ég hitti gjarnan á leiklistarhátíð heimilislausra leikhúsa í Bratislava.

Við mannfólkið erum að fást við svo margt og merkilegt og ekkert er eins og það sýnist. Austurhluti álfunnar er ótrúlega áhugaverður vegna hinnar ríku menningar, stórbrotnu sögu og víðfeðmra róta íbúanna. Hver fjölskylda á sér stóra sögu eins og ég fékk staðfest á stefnumótinu við Susy.

Ég var ein skráð í ókeypis gönguferð undir nafninu Shocking History About Budapest – Nazi and Soviet Terror. Við röltum í klukkutíma um gyðingagettóið og Susy sagði mér sögur af fólki við upphaf jaðarsetningar  gyðingaofsóknanna, af fjölda Ungverja í Auswitz, fimmtíu daga umsátri  Sovétmanna og Rúmena um Búdapest í lok stríðsins sem kostaði þrjátíu og átta þúsund óbreytta borgara lífið, um ógnir Sovéttímans, Uppreisnina 1956 og flótta afa hennar með timburflutningavagni frá gúlaginu í Síberíu til Ungverjalands.

Free walking þýðir að þátttakendur greiða það sem þeir vilja. Ég vildi gera vel við Susy en í fyrsta sinn í ferðinni ruglaðist í ríminu vegna hinna ólíku gjaldmiðla, sloti, kórunum, evrum og forintum og greiddi henni óvart sömu upphæð og fjögurra nátta gisting mín kostaði. Susy klökknaði af þakklæti vegna þessara tólf þúsund króna og hélt áfram að sýna mér borgina í tvo klukkutíma með innsýn í óánægju fólks og atgervisflótta. Svo fengum við okkur te og ég hjálpaði henni af stað með að skrifa smásöguna sem blundar með henni. Nú er þessi ungverska félagsvísindakona og áhugaleikstjóri, sem þjáist í starfi sínu sem  tryggingafulltrúi, orðin vinkona mín á facebook.

Susy kann að taka sjálfur. 

Péter og László eru að renna úr hlaði á bíl drekkhlöðnum nýbrenndra leirmuna. Við Jóna ætlum í þorpið að kaupa paprikur og kákasus-kefír úr kaplamjólk sem ég drekk daglega. Rólegheitanna á Puztunni nýt ég fram á sunnudag þegar ég held til  Timisoara í Rúmeníu og þaðan til  Novi Sad í serbneska sjálfstjórnarríkinu Vojvodina.

Köszönöm, és később találkozunk. Takk og sjáumst síðar.