Þótt lestarferðalag mitt hafi gengið vel fyrsta hálfa mánuðinn lenti ég í byrjunarörðugleikum á milli Bielsko-Biala og Prag. Þeir stöfuðu af tvenns konar upplýsingaólæsi, annars vegar app-ólæsi eldri konu sem fann ekki ferðakóðann í símanum þegar óþolinmóður lestarvörður stóð yfir henni og hins vegar ólæsi mínu á pólska tungu á lítilli skiptistöð við landamærin. Lestin rann hjá meðan ég rýndi í óskiljanlegan miðann og ég var því dæmd til fjögurra klukkustunda leiðinda í krummaskuði þar sem ekki fékkst svo mikið sem vatnsflaska.
Ég ákvað að nýta tímann til innhverfrar íhugunar en smám saman tók að kvikna líf í kringum mig. Í þessu óvænta stoppi græddi ég ókeypis upprifjun á menntaskólaþýskunni í existensíalískum samræðum við róna staðarins en brautarstöðvar eru sem kunnugt er kjörlendi krónískra drykkjumanna.
Bogdan, sem kunni svolítið í norsku, sagðist hafa augu allan hringinn og sannaði það með því að lýsa í smáatriðum klæðaburði konu sem hann sneri baki í. Svo teiknaði hann handa mér mynd að skilnaði.
Fyrir milligöngu guðs og góðra kvenna lærði ég í Prag loks á Interrail-appið og kvíði því ekki Bratislava-ferðinni lengur. Í gær var með mér í herbergi ung, írsk kona í erfiðu mígrenkasti sem hún rakti til þess hve ferðalagið hefur reynt á hana. Þótt miði hennar gildi í tíu vikur í viðbót, eins og minn, ákvað hún að hætta flakkinu og finna sér frekar vinnu í sætri, mið-evrópskri borg. Þannig má líka tækla skortinn á þægindaramma. Sjálf fann ég streituhnúta mína leysast um leið og ég steig út fyrir þægindarammann og heilaþoka í kjölfar kulnunar og kóvíd finn ég að er á undanhaldi.
Ég naut hvers dags í hinni stórkostlegu Prag eins og ég segi frá síðar en ekki síður náttanna þegar tíu manna svefnskálinn andar í takt. Þið sem stundið hálendisgöngur þekkið þennan sjarma svefnskálanna. Eyrnatappa hef ég ekki þurft þrátt fyrir að hafa lent á djammhosteli í Prag.
Þegar ég hef komið mér upp staðbetri sérþekkingu á Interrail og einkennum evrópskra hostela mun ég að sjálfsögðu skrifa hér færslur með leiðbeiningum fyrir þau sem langar á ódýrt flakk.
Nú ætla ég hins vegar að fjalla um það sem ég kalla ,,farangrið“ enda hefur mér alltaf fundist farangur eiga að vera hvorugkynsorð eins og munnangur; það sem angrar fólk á för. En nú bregður svo við að ég get ekki kallað bakpokann minn angur enda er hann minn traustasti vinur.
Væri ég áhrifavaldur myndi ég auglýsa hvar ég keypti fimmtíu lítra Osprey-pokann græna og góða. Ég mæli eindregið með slíkum poka á borgarflakki. Ferðatöskur eru ónothæfar enda leggjast þær ekki að líkamanum og eru allsendis ófærar um að mynda tilfinningatengsl. Ferðataska er bara utanáliggjandi aðskotahlutur.
Pokinn minn er í raun tveir pokar sem renna má saman. Annar er á stærð við litla flugfreyjutösku en hinn er dagpoki. Flugfreyjupokinn opnast allan hringinn eins og taska og hefur bæði poka- og töskuhald. Og þegar öllum böndum hefur verið troðið í þartilgert hólf lítur pokinn út eins og nett taska. Mér skilst að öll flugfélög leyfi Osprey-pokann í tvennu lagi í handfarangri. Og nú er ég búin að nefna vörumerkið tvisvar en sver að vera hvorki sponsruð af Ellingsen né GG Sport.
Nesti og nýir skó veita söguhetjum vernd á ferð sinni.
Fötin sem ferðast með mér eru létt, fyrirferðarlítil og þorna hratt. Göngubuxur og sportstuttbuxur, einar nærbuxur, bikinibuxur, brjóstahaldari og tankinitoppur, bolur, mussa, hversdags- og sparikjólgopar og eyrnarlokkar til hátíðabrigða, hettupeysa og slá sem ég treð inn í koddaver til hvíldar á lestarferðum, einnota regnkápa og ofið handklæði sem nota má sem sjal. Nýir, gulir gönguskór og sandalar. Örþunnur silkisvefnpoki til notkunar þar sem engin rúmföt eru og þegar of heitt verður fyrir sæng. Fötin þvæ ég í sturtunni og hengi utan á kojuna. Svo má líka bara fara í fötin blaut.
Átta vasar eru samanlagt á flíkum mínum auk brjóstahaldaraskálanna en í þeim ég varðveiti við hjartastað mín helstu verðmæti. Á bakpokunum og litlu hliðartöskunni eru alls fimmtán vasar og leynihólf þannig að mér finnst ég ferðast um með bæði fataskáp og kommóðu, Markmið mitt að finna öllum hlutum mínum ákveðinn samastað í sumar. Ég er snillingur í að skapa skipulag en yfirleitt fullkomlega ófær um að viðhalda því. Það verður því töluverð þolraun að þurfa að setja hlutina á sinn stað.
Snyrtivörurnar eru fábreyttar. Sólarvörn og lítil, blá dós með Niveakremi sem gegnir hlutverki næturkrems, hreinsikrems og næringar fyrir þrammandi fætur. Naglaskæri og skeið til að borða með jógúrt á torgum. Svitalyktareyðandi krem í lítilli dós, ómissandi hárvaxið og maskari til að vera ekki glær í gegn. Pilluglas með Levaxin vegna vanvirks skjaldkirtils, þrjár höfuðverkjartöflur og ofnæmisáburður og svo það sem ég óttast mest að týna; sumarskammturinn minn af plastskinnum, tólf alls. Týndi ég skinnunum gæti það bundið enda á ferðalag mitt enda rándýrar tannréttingar í veði. Svei mér ef ég er ekki gengin í barndóm með tannréttingar á Interrail.
Bókin The Artist´s Way fylgir mér en aðrar bækur tek ég á einu hosteli og skila á því næsta. Tölva, sími og örsmá heyrnartól eru með í för – en eitt vantar mig tilfinnanlega sem angrar mig mjög. Ég ákvað að skilja myndavélina eftir heima og nota bara símann. Þvílík mistök! Ég hefði alveg haft pláss fyrir Canoninn.
Það er allt önnur athöfn að taka mynd á síma en vél. Á símann tekurðu myndir af því sem fyrir augu beru en myndavélin fer með þig í leit að áhugaverðum myndefnum. Skrifi ég bók um ferðalagið eru myndir mínar ónothæfar svo kannski ég geri bara hljóðbók. Í núverandi ástandi í bókabransanum geta höfundar ekki hugsað um að græða sem mest heldur um að tapa sem minnstu.
Ég heyri ýmsar sögur um léttan farangur fólks en ég get toppað þær allar: Einu sinni fór ég gegnum þrjár flughafnir með tvennar nærbuxur í úlpuvasanum og eina bók í höndunum auk neyðarpassans sem ég hafði fengið eftir að hafa verið rænd í leiguíbúð í Bratislava. Og nú sé ég gegnum lestargluggann appelsínugula, kommúníska kassa úthverfa þeirrar annars svo fögru borgar birtast, Hingað er ég komin í sjötta sinn, í fyrsta sinn að sumarlagi en í hin skiptin af ákveðinni ástæðu alltaf í nóvember. Meira hvað mér þykir vænt um þessa borg og fólkið mitt hér.
Á morgun bíður fjórða leikhúsferð Interrail-flakksins og því næst dvö á heimili í þorpi rétt utan við þann fallega bæ, Banska Bystrica, í hjarta Slóvakíu.
Auf widersehnsky. Sjáumst síðar.