Björg Árnadóttir

Um Björgu

Björg Árnadóttir er eigandi og aðalkennari Stílvopnsins. Hún er rithöfundur, blaðamaður, ritlistar- og myndlistarkennari með meistaragráðu í menntunarfræðum skapandi greina. Hún starfar innan vébanda ReykjavíkurAkademíunnar og er félagi í Rithöfundasambandinu, Hagþenki og Samtökum móðurmálskennara.

Menntun

„Ég vandist því ung að lifa lífinu skrifandi enda úr fjölskyldu rithöfunda og hefði eflaust lært ritlist hefði slíkt nám staðið til boða á sjöunda áratug síðustu aldar. Í staðinn fór ég lengri, en ekki síðri, leið að núverandi starfi sem rithöfundur og ritlistarkennari. Ég valdi nám sem mér fannst standa ritlistinni nærri og útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands vorið 1983.

Myndlistin kennir okkur að taka eftir því sem fyrir augu ber en það er höfundum einnig hollt að tileinka sér. Og í kennaradeild MHÍ lærði ég svo ótal margt sem síðar hefur gagnast mér við ritlistarkennslu. Ég lærði þá list að fá fólk til að skapa.

Sem nýútskrifaður myndlistarkennari hóf ég störf hjá sænskri menningarstofnun og sóttist eftir samstarfi við rithöfundana sem þar voru að þreifa sig áfram með að kenna sitt fag. Það breytti framtíð minni að kynnast hugmyndum þeirra og aðferðum. Við unnum oft með Fræðsluvarpinu (Utbildningsradion, SVT) sem jók enn færni mína við að fræða, miðla og segja sögur og varð mér hvatning til að ljúka námi í blaðamennsku við Kalix Folkhögskola. Æ síðan hefur þroskandi hugmyndafræði lýðháskólanna litað kennsluheimspeki mína.

Ritlistarkennsla

Ég flutti aftur til Íslands haustið 1989, varð ritstjóri tímaritsins Veru, byrjaði að kenna blaðamennsku og tjáningu í framhaldskóla og auglýsti fyrsta námskeiðið mitt í skapandi skrifum.

Þú ættir að vita það, vænan, að ritlist er ekki hægt að kenna, sögðu ýmsir og töldu ritfærnina aðeins útvöldum í blóð borna. Sem betur fer var þetta ekki skoðun Samtaka móðurmálskennara og ég fékk að túra um landið og halda ritlistarnámskeið ásamt Pétri Gunnarssyni rithöfundi og Baldri Sigurðssyni, frumkvöðli í ritlistarkennslu við Kennaraháskóla Íslands.

Nú hef ég hátt í fjörutíu ára kennslureynslu sem segir mér að ritlist sé sannarlega hægt að kenna. Það er þó ekki markmið Stílvopnsins að framleiða rithöfunda heldur hitt að hvetja fólk til að gera það sem hugur svo margra stendur til – að setja hugsanir á blað. Þess vegna leita jafnt útgefnir höfundar sem og allur almenningur hugmynda, fræðslu og innblásturs á námskeiðum mínum.  Í áratugi hef ég kennt um ólík frásagnarform á ýmsum skólastigum, hérlendis og erlendis, en síðan ég stofnaði Stílvopnið árið 2015 hefur það verið aðalstarf mitt að þróa og kenna ritlistarnámskeið á framhaldsfræðslustigi.

Önnur störf

Á ferilskránni er líka ýmislegt annað. Ég hef skrifað, þýtt og ritstýrt blöðum og bókum, skrifað fjölmargar greinar og viðtöl og gert útvarps- og sjónvarpsþætti á Íslandi og í Svíþjóð. Ég hef leitt einstaklinga í gegnum sköpunarferli, kennt um sköpunarfærni og félagsörvun og starfað mörg sumur við upplýsingagjöf til ferðamanna sem einnig flokkast undir fræðslu. Ég hef stýrt þremur símenntunarmiðstöðvum (Símenntunarmiðstöð Vesturlands, Framvegis og Námsflokkum Reykjavíkur), tekið þátt í þróun menntunarúrræða fyrir jaðarsetta hópa og starfað í fjölþjóða samvinnuverkefnum um skapandi, valdeflandi og inngildandi aðferðir samfélagslistanna. Ég fæ aldrei nóg af því að fræða."

Nokkur viðtöl