Ferðin
Í kvennaferð til Norður-Tanzaníu fá konur tækifæri til að ræða stöðu kvenna í ólíkum samfélögum, hvernig konur reyna að taka þátt í atvinnulífi og takast á við ólíkar áskoranir. Í ferðinni eru jafnframt skoðaðir tveir þekktir þjóðgarðar með einstöku, villtu dýralífi og nokkrir þjóðflokkar heimsóttir, þar á meðal Hazabe-þjóðflokkurinn sem býður í stutta veiðiferð með spjót, boga og örvar að vopni. Ýmislegt fleira er skoðað, svo sem kaffirækt og múrsteinagerð, auk þess sem litið er við í tveimur skólum. Í lok ferðar er dvalið fimm nætur á eyjunni Zanzibar.
Fararstjórn
Fararstjóri er dr. Anna Elísabet Ólafsdóttir lýðheilsufræðingur, sem stofnaði og starfrækti Tanzanice Farm í Karatu í fjórtán ár og stuðlaði að frumkvöðlastarfi og nýsköpun, einkum meðal kvenna en alkunna er hve nýsköpun kvenna skilar miklu til samfélagsins.
Með í för er Björg Árnadóttir ritlistarkennari sem blæs hópnum í brjóst löngun til að skrifa um það sem fyrir augu ber og kennir til þess ýmsar aðferðir. Engin reynsla af ritlist er nauðsynleg, aðeins löngun til að upplifa ferðalagið í hópi skrifandi kvenna.
Anna Elísabet segir frá fyrirhugaðri Tansaníuferð í ritbúðum
Stílvopnsins á Indlandi síðastliðið haust. Björg hlustar álengdar.
Fyrirkomulag
14.-24. nóv.: Mest er dvalið á búgarði Tanzanice nálægt bænum Karatu í Norður-Tanzaníu. Þjóðgarðar og önnur náttúrundur skoðuð ásamt skólum og fyrirtækjum í eigu kvenna og íslenskar konur eiga samtal við konur á vegum Women Power-samtakanna. Skrifað verður og bloggað um reynsluna.
24.-30. nóv.: Dvalið á eyjunni Zanzibar. Náttúru notið og sólar.
Búgarður Tanzanice í Karatu.