Innihald námskeiðs
Kveikjur eru notaðar til að vekja minningar og ólíkar aðferðir kynntar til að skrá þær; dagbækur, minningargreinar, ævisögur og -þættir, skráning viðtala, sjálfsögur, samfélagsmiðlar, hlaðvörp og fleira.
Fólk kemur ýmist til að skrifa um eigið líf eða annarra. Sum koma einkum til að muna og minnast en önnur til að láta loks verða af því að byrja að skrifa. Enn önnur er komin vel á veg með minningatengd skrif tengd.
Námskeiðið er ekki fagnámskeið um ævisagnaritun heldur nærandi og fræðandi samvera fólks á öllum aldri. Það gagnast þó ævisagnaritunum í leit að innblæstri. Minningar spyrja ekki um aldur og breitt aldursbil þátttakanda eykur gildi samverunnar.
Tilhögun námskeiðs
Mán. 25. sept. kl. 18:00-22:00: UPPHITUN
Hópurinn kynnist og kyndir undir rithæfninni með stuttum æfingum. Kveikjur eru notaðar til að rifja upp minningar og byrja að skrifa.
Mán. 2. okt. kl. 18:00-22:00: DAGBÆKUR OG VIÐTÖL
Ólíkar aðferðir við dagbókaskrif kynntar og rætt um heimilda- og notagildi þeirra. Fjallað um viðtöl og ýmsar leiðir við úrvinnslu þeirra. Rætt um mismunandi leiðir til að birta skrif sem byggjast á endurminningum.
Mán. 9. okt. kl. 18:00-22:00: MINNINGARORÐ OG SKRIF UM ANNAÐ FÓLK
Skoðaðar eru breytingar sem orðið hafa á hinni séríslensku bókmenntagrein, minningargreinum. Fjallað um vandann sem fylgir því að skrifa um annað fólk. Þau sem hafa skrifað minningarorð deila þeim með hópnum. Einnig er fjallað um heimildaleit og notkun heimilda í endurminningaskrifum.
Mán. 16. okt. kl. 18:00-22:00: ÚRVINNSLA
Þar sem námskeiðið litast af hugðarefnum þátttakenda hverju sinni snýst lokakvöldið um að deila skrifum og hugmyndum sem kviknað hafa á námskeiðinu. Áfram er haldið að þróa hugmyndir með samtali og frekari skrifum.
Ekki er lögð fyrir heimavinna en þátttakendur grúska að lyst milli skipta.
Nánari upplýsingar um námskeiðið: bjorg@stilvopnid.is / s. 899 6917.
Björg Baldursdóttir (Ritun endurminninga, haustið 2022):
„Það er ekki að orðlengja það að þetta námskeið er það skemmtilegasta og gagnlegasta sem ég hef sótt um ævina. Það opnuðust flóðgáttir og einlæg löngun til að koma minningunum mínum á blað. Og ekki bara minningum heldur tók ég ákvörðun um að nú loksins myndi ég fara að halda dagbók. Kveikjurnar virkuðu svo sannarlega því heilinn stendur enn í ljósum logum. Björg er einstaklega lagin við að laða fram og hlúa að litlu fræjunum sem eru þarna einhversstaðar í kollinum á okkur þannig að þau verða örugglega hjá okkur flestum að vænstu plöntum. Með sinni hæglátu og jákvæðu hvatningu tókst henni að byggja upp trú okkar nemendanna á, að við gætum öll skrifað og tjáð okkur á rituðu máli. Hjartans þakkir Björg.”