Um hvað snýst smiðjan?
Á þessu leikandi létta námskeiði, sem hefur þó alvarlega undirtóna, eru notaðar aðferðir lista og leikja, leiddrar hugleiðslu og skapandi samtala. Stuðst er við þrjár þekktar sjálfskoðunaraðferðir sem þátttakendur þurfa þó ekki að þekkja.
Markmiðið er ekki að læra um aðferðir heldur að læra á þig!
Viðtal við Björgu um Hetjuferðina, Tólf spora ævintýrið og fleira
Hvers vegna skapaði Björg þessa smiðju?
„Ég hef um árabil kennt Hetjuferðina (The Hero´s Journey) sem aðferð til að segja sögur en kynntist henni þó upphaflega sem tæki til að takast á við áskoranir lífsins. Í sex þjóða Evrópuverkefni kynntumst við okkur Hetjuferðarþjálfun leikhússmannsins Paul Rebillot og þróuðum eigin kennslu- eða meðferðaraðferðir byggðar á hugmyndum hins þekkta bandaríska goðsagnafræðings Joseph Campbell (1904-1987).
Hetjuferðin á sér þó engan höfund heldur hefur birst í sagnalistinni frá örófi alda en ekki síður í lífssögum okkar allra.
Líkt og margir aðrir hef ég lengi lifað í Sporunum tólf (Twelve Steps to Recovery). Gott ef við Íslendingar eigum ekki heimsmet í að virkja sameiginlegan styrk okkar til að takast á við hvers kyns áskoranir. Tólfsporaaðferðin varð til innan AA-samtakanna en er nú notuð í fjölda ólíkra sjálfshjálparsamtaka.
Aðferðin er gjarnan kölluð andleg leið til þroska en ekki þurfi að aðhyllast trúarbrögð til að nýta sér hana.
Ég taldi mig hafa gert meiriháttar uppfinningu þegar ég áttaði mig á að Hetjuferðin og Tólfsporaaðferðin byggja á sama grunni en svo gúgglaði ég og fann 15.800.043 greinar. Ég fann fimmtán milljónir og átta hundruð þúsund greinar um hugmyndafræðileg tengsl þessara tveggja sjálfshjálparaðferða!
Ég lagðist þó ekki í lestur heldur hélt áfram að þróa mínar eigin hugmyndir. Þá hjálpaði að þekkja bókina The Artist´s Way: A Spiritual Path to Higher Creativity (1992) en þessi metsölubók bandaríska rithöfundarins Juliu Cameron er fólki um víða veröld biblía í leitinni að innri sköpunarmætti.
Í Tólf spora ævintýri mínu flétta ég þessum þremur aðferðum saman í aðferðir sem í grunninn byggja á fjörutíu ára kennslureynslu minni í skapandi greinum. Smiðjan er ekki hoggin í stein heldur verður til í samsköpun þátttakenda hverju sinni.
Fyrirkomulag námskeiðs
Fös. 20. okt. kl. 18:00-22:00
Hópurinn er hristur saman með upphitunaræfingum sem spegla hetjuna og ferðalag hennar. Kynning á og umræður um aðferðirnar sem notaðar verða.
Hetjuferðin: Hetjan er ekki ofurhetja heldur sú sem þorir þrátt fyrir óttann að takast á við breytingar.
Spor 1-3: Við játum okkur sigruð og sjáum að við þurftum hjálp.
Leið listamannsins: Aðferðirnar Morgunsíður og Stefnumót við listamann.
Lau. 21. okt. kl. 10:00-14:00
Hetjuferðin: Hetjan tekst á við þrautir og þroskaverkefni í óþekktu landi ævintýrisins. Í ferli friðþægingar og sátta hefst umbreyting hetjunnar.
Spor 4-6: Við tókumst á við bresti. Spor 7-9: Við bættum fyrir misgjörðir.
Leið listamannsins: Við horfumst í augu við hindranir.
Sun. 22. okt. kl. 10:00-14:00
Hetjuferðin: Í ferli umbreytingar hlýtur hetjan gjöf sem hún fer með aftur inn í sinn þekkta heim, öllu samfélagi sínu til heilla.
Spor 10-12: Við urðum fyrir vakningu og bárum öðrum boðskapinn.
Leið listamannsins: Við finnum frelsið til að skapa.
Ónefndur þátttakandi (2018):
„Vá, hvað ég sé þroskaverkefni mín í nýju ljósi! Ég hló mig og grét í gegnum smiðjuna.“
Nánari upplýsingar um námskeiðið: s. 899 6917
Er áhugi á námskeiði utan höfuðborgarsvæðisins? Hafið samband