Námskeiðið hefst á þriðja degi Kochi-dvalar. Það er 4 klukkustundir í senn 8 af þeim 14 dögum sem við erum í Kochi. Þéttleiki námskeiðsdaganna ræðst af aðstæðum og óskum ykkar en mér finnst sniðugt að kenna 4 daga í hvorri viku og hafa 3-4 daga hlé um miðbikið ef fólk vill skreppa eitthvað.
Ég hugsa námskeiðið um það bil svona:
Við byrjum á félagsörvandi æfingum til að kynnast og byrja að skrifa og skapa saman á auðveldan hátt.
Því næst horfum við inn á við í ritlistaræfingum um okkur sjálf.
Að því loknu opnum við fyrir öll skilningarvit í leiðangrum þar sem skrifað er um það sem fyrir skilningarvitin ber.
Þá skoðum við aðferðir sagnaritunar og skrifum sögur sem leiða okkur að frásagnarlíkani Hetjuferðarinnar.
Í lok námskeiðs fléttum við saman staðreyndum, upplifunum og tilfinningum í vandaðri grein eða færslu um valið efni úr ferðalaginu.
En auðvitað er hverjum höfundi frjálst að fylgja ekki planinu heldur elta eigin hugmyndir.
Hver fjögurra tíma sessjón hefst með innlögn (verkefni lagt fyrir og um það rætt í hópnum), verkefnin leyst (stundum í áföngum) og skrifunum deilt (ýmist með öllum hópnum eða í minni hópum).
Skrifin eru svo óhjákvæmilega rædd allan tímann okkar saman og uppdiktaðar persónurnar verða eins og hluti hópsins.
