Flakk um framandi slóðir

KONUR HITTA KONUR – ritbúðir í Tansaníu haustið 2024

Dagurinn sem íslenski hópurinn hitti Women Power konurnar gleymist seint.

Við ferðuðumst saman sjö leggi um loftin blá, keyrðum í jeppum um ríki villtra dýra og kynntumst einföldum lifnaðarháttum afskekktra ættbálka Norður-Tansaníu. En við syntum líka meðal höfrunga í heitum sjó og lifðum í lúxus með sand hvítan sem hveiti undir fótum.

Þessi fimmtán kvenna ævintýraferð sem aldrei var auglýst fylltist á fáeinum dögum ári fyrir brottför. Auk þess að gera allt ofangreint var erindi okkar samt fyrst og fremst að kynnast konum í Karatu-þorpi og skrifa um ferðina sem fékk nafnið KONUR HITTA KONUR.

Hópurinn ásamt vinum með útsýni yfir Ngorongoro sléttuna. Kannski þekkirðu einhverjar?

Ég hef frásögnina á síðasta degi ferðarinnar…

-Nú leggjum við af stað í safarí, sagði leiðsögumaðurinn sem kom inn í rútuna við strandhótel okkar á Sansibar. Við horfðum hissa á hann. Dýraskoðun var ekki beinlínis á dagskrá á eyjunni fögru sem forðum var fræg fyrir sölu á þrælum, fílabeini og kryddum. Auk þess voru ekki nema fáeinir tímar í flugið heim.
-Hakuna matata, engar áhyggjur, sagði hann kankvís þegar hann sá á okkur svipinn og útskýrði að á swahílí þýðir safarí einfaldlega ferðalag.

Við áttum því átján daga ógleymanlegt safarí á láði, legi og í lofti. (Loftferðalag okkar er einkum eftirminnilegt fyrir þær sakir að meirihluti hópsins græddi óvænta aðventudvöl í London þar sem við misstum af tengifluginu heim. En það er önnur saga).

Á Sansibar dvöldum við fjóra daga á næsta bæ við himnaríki en síðasta daginn notuðum við sem sagt til að skoða okkur um. Við kynntumst kryddrækt, sögu þrælaverslunar og þröngum strætum Stone Town – og það allra síðasta sem við sáum í Tansaníu var áhugavert safn um nafntogaðasta son Sansibar, hina indversk-persnesk ættuðu goðsögn Freddie Mercury.

Það kom mér á óvart hvað dvölin á þessum slóðum vakti mikinn áhuga minn á sameiginlegri sögu afrískra og asískra þjóða við norðanvert Indlandshaf en djúpstæð tengsl hafa þar löngum verið á sviði menningar og viðskipta, siglinga og fólksflutninga. Þrælasafnið í Stone Town, en ekki síður samtölin við leiðsögumenn okkar norðar í landinu, opnuðu mér nýjan skilning á þætti Afríkubúa sjálfra, Indverja og araba á þrælasölunni til Ameríku. Og nú liggur mér á að komast aftur til Afríku til að skilja betur sögu þrælaverslunar. Og náttúrlega líka svo ótal margt fleira sem ég vissi ekki að ég vissi ekki. Ferðalög fjalla ekki síst um að komast að því hversu lítið maður veit.

Ég hnýti saman ritlistarnámskeiðið síðasta kvöldið á Sansibar.

Hvað veist þú um Tansaníu?

Tansanía er rétt sunnan miðbaugs. Hún er stærst landa í Austur-Afríku og að henni liggja átta grannríki auk Indlandshafs í austri. Sansibar er stærst þriggja eyja sem tilheyra Tansaníu.

Tanganyika er eldra nafn á landinu sem á nýlendutímanum laut stjórn Þjóðverja og síðar Breta. Um svipað leyti og landið hlaut sjálfstæði árið 1961 sameinuðust Tanganyika og Sansibar og úr varð Tansanía. Íbúar eru um 67 milljónir og ættbálkar rúmlega 120. Tveir þriðju þjóðarinnar eru kristnir, múslimar eru um þriðjungur en lítill hluti játar opinberlega aðra trú. Á Sansibar eru flestir íbúar múslímar og íslömsk áhrif því mikil. Þar heyrði ég innfædda nota arabíska þakkaryrðið shukran í stað swahílska asante.

Opinber tungumál eru swahílí og enska. Þótt enskan sé einkum notuð í opinberu lífi í borgum er enskukunnátta almennings næg til að auðvelt sé fyrir okkur að ferðast um landið. Eftir því sem ég kemst næst er Tansanía með stjórnarfarslega stöðugustu löndum Afríku og þar þykir nokkuð öruggt að ferðast.

Landið er þekkt fyrir víðáttumiklar sléttur og mörg stöðuvötn.  „Hin fimm stóru” má finna í fjölda þjóðgarða og verndarsvæða en þau eru ljón, fíll, nashyrningur, hlébarði og afrískur buffaló. Kilimanjaro er hæsta staka fjall heims og Olduvai-gljúfið er kallað „vagga mannkyns” en þar fundust árið 1978 elstu mannvistarleifar heims, Laetoli fótsporin, sem munu vera 3.7 milljónir ára gömul.

 

Hluti hópsins fótgangandi í frjósamri, rauðri moldinni ekki langt frá vöggu mannkyns.

Jambo!

Hver einasta manneskja heilsaði mér svo hjartanlega að fyrir vikið varð jambo! fyrsta orðið í virkum swahílskum orðaforða mínum. Auk asante, takk. Áður þekkti ég auðvitað orðin sem Disney stimplaði svo rækilega inn í sammannlegan orðaforða með söng Tímors og Púmbu: hakuna matata.

Við vorum stöðugt áminntar um tilgangsleysi hugarangurs með brosum svo breiðum að skein í skjannahvíta tanngarða. Smám saman leyfði ég mér að sleppa tökum á inngrónum áhyggjum því að þótt tíminn liði á einhvern hátt öðruvísi í Afríku en heima á Íslandi vorum við alltaf í öruggum höndum fararstjórans Önnu Elísabetar Ólafsdóttur og fólksins hennar á TanzanIce-búgarðinum í Karatu-þorpi í byggðalaginu dreifða, Bashay. Þar bjuggum við meðal innfæddra meirihluta ferðarinnar.

Konur hittu konur á búgarðinum okkar og á heimilum þeirra, menntastofnunum og  nýsköpunarfyrirtækjum. Við ferðuðumst stundum fótgangandi en annars á þremur jeppum með staðkunnugum leiðsögumönnum, vinum Önnu. En sjálf var hún ekki síðri sögumaður enda gjörþekkir hún allt og alla í byggðalaginu sem  hún elskar og sem endurgeldur henni ástina margfaldlega.

TanzanIce

Dr. Anna Elísabet Ólafsdóttir er lýðheilsufræðingur sem heillaðist af Tansaníu þegar hún kom þangað fyrst með fjölskyldu sinni árið 2005. Þremur árum síðar höfðu hún og eiginmaður hennar, Viðar Viðarsson, stofnað fyrirtækið TanzanIce og hafist handa við að byggja frá grunni búgarð á nær sex hekturum óræktaðs lands. Þar fékkst Anna við lífræna ræktun og uppbyggingu lítillar ferðaþjónustu. Nú hafa  þau hjónin selt fyrirtækið en starfsfólkið, sem er þar enn, er þeim sem önnur fjölskylda.

Oliva með tvíbura elstu systur sinnar heitinnar. Börnin heita Anna og Elias í höfuðið á Önnu Elísabetu.

Resty og Oliva, ungar systur af svæðinu, leiða starfið á TanzanIce enda hafa þær fengið til þess menntun og þjálfun, meðal annars í sex ferðum til Íslands. Þessar harðduglegu og þrælskipulögðu systur iða af lífi og fjöri, dansi og söng og dagleg kynni við þær og fjölskyldur þeirrar þóttu mér bæði nærandi og mannbætandi.

Með ættmóðurinni á æskuheimili þeirra systra.

Women Power

Á alþjóðadegi kvenna árið 2015 voru félagasamtökin Women Power stofnuð á Íslandi að undirlagi Önnu. Markmið þeirra er að styrkja frumkvöðlahugsun og fjármálalæsi kvenna en sem kunnugt er þykir valdefling kvenna eitt skilvirkasta form þróunarsamvinnu. Women Power samtök voru nokkrum árum síðar einnig stofnuð í þorpinu Bashay og eru þau undir stjórn innfæddra kvenna sem veita konum lán til atvinnuuppbyggingar í byggðalaginu.
Hér má lesa um og styrkja starfsemi Women Power.

Anna með nýjum leiðtoga Women Power.

Fagnaðarfundir þegar Women Power leiðtogar hittast.

Dagurinn þegar ríflega tuttugu Women Power konur sóttu okkur heim mun seint gleymast. Það var eldað saman, borðað og blaðrað. Líklega þótti þeim afrísku íslensku konurnar ekki sérlega húslegar enda við löngu orðnar afvanar því hlutverki formæðra okkar að elda frá grunni yfir opnum eldi.

Eldað saman á Tanzanice.

Við gátum hins vegar ekki annað en dáðst að lífsleikni þeirra. Kennarar í hópnum sögðust hafa hundrað börn í bekk sem við trúðum tæplega fyrr en við sáum fjöldann með eigin augum. Í skólanum upplifðum við aga blandaðan lífsgleði og kæti. Ég verð að viðurkenna að augu mín fylltust tárum þegar barnaskarinn sagði allur í kór „ég elska skólann minn, ég elska landið mitt.” Sú hugsun hvarflaði ósjálfrátt að mér að slík dagleg ástarjátning gæti kannski aukið gleði í íslenskum skólum.

Grunnskólinn í Bashay.

Fjörugar stelpur í grunnskóla Bashay.

Framhald Indlandsævintýrisins

Hugmyndin að Tansaníuferðinni kviknaði reyndar annars staðar við Indlandshafið, á Secret Garden hótelinu í Kochi-borg á Suður-Indlandi. Hótelið á og rekur önnur íslensk afrekskona, Þóra Bergný Guðmundsdóttir. Þegar sextán íslenskar konur dvöldu þar í ritbúðum haustið 2023 fékk ein þeirra, Anna Elísabet, hugmynd: Hvernig litist hópnum á að fara næst í „safarí” á Afríkuslóðir? Helmingur hópsins beit undir eins á agnið og nýjar bættust fljótlega við.

 

Íslenskar athafnakonur, Anna Elísabet og Þóra Bergný, bera saman bækur sínar á Secret Garden.

Sem kunnugt er umlykur ólík ára álfurnar Afríku og Asíu. Á hinu innhverfa Indlandi hurfum við inn í eigin hugarheim undir yfirskriftinni SKRIFAÐ MEÐ ÖLLUM SKILNINGARVITUM. Skrifin í Afríku urðu hins vegar ósjálftrátt jarðtengdari eins og álfan er öll. Ég kallaði ritbúðirnar FERÐASKRIF enda vorum við á sífelldu flakki og hópurinn duglegur að deila ferðasögum á facebook. Sjálf hef ég átt óvenju erfitt með að skrifa um þessa ferð og tel ástæðurnar vera tvær: 1. Ég var svo upptekin af upplifun kvennanna á námskeiðinu að ég náði aldrei að klæða allt sem fyrir augu bar í orð. 2. Mig  grunar að bráðlega muni birtast skrif Önnu Elísabetar um efnið sem hún þekkir svo vel, líf kvenna í Bashay.

Ritbúðir hvítra kvenna í Karatu.

Ngorongoro – einn hápunktanna

En Afríku get ég ekki yfirgefið án þess að minnast á dýralífið.

Frá Karatu er stutt til tveggja afar ólíkra þjóðgarða, Lake Manyara og hins þekkta Ngorongoro. Ferðina um skóglendið við Manyara-vatn vil ég kalla safarí fyrir byrjendur en Ngorongoro verndarsvæðið er sannarlega fyrir lengra komna.

Það er ekki alltaf sól í Afríku.

Það er ekki alltaf sól í Afríku.

Til Ngorongoro komum við um sólarupprás daginn sem ég uppgötvaði áhuga minn á villtu dýralífi. Engan sáum við hlébarðann en hin fjögur stóru heiðruðu okkur með nærveru sinni auk slatta af 25.000 villtum tegundum Tansaníu. (Á Íslandi er ekki um auðugan garð að gresja á þessu sviði fyrir utan náttúrlega fuglana. Refur var eina villta spendýrið við landnám en í fylgd mannskepnunnar hafa mýs og rottur numið land og nú síðast minkar og kanínur. En það er önnur saga).

Zebrahesta mun vera ómögulegt að temja.

Zebrahestur er listaverk hvar sem á hann er litið og hann sér víst dýra best. Svo er hann líka ótemjanlegur.

Zebrahestarnir þóttu mér fallegastir en ljónin áhugaverðust þar sem þau störðu í augu okkar, liggjandi á meltunni eftir morgunverðinn. Fróðlegast þótti mér hins vegar að fræðast um samlíf tegundanna og þar komum við ekki að tómum kofunum hjá sérfróðum leiðsögumönnunum þremur. Þeir urðu okkur reyndar óþrjótandi uppspretta umræðuefna á niðdimmum síðkvöldum í sveitinni. Þá var gaman að bera saman það sem leiðsögumennirnir höfðu sagt, jafnt um opinber málefni Tansaníu og einkamál þeirra sjálfra!

Ekki skrítið að Anna sæi meira en við hinar í gegnum þessa ógnarlöngu linsu.

Næturköttinn (Serval Night Cat) hafði Anna aldrei séð áður í fjölmörgum ferðum sínum um þjóðgarðinn.

Ættbálkarnir

Ngorongoro er friðlýst verndarsvæði og á heimsminjaskrá UNESCO. Fyrir utan fjölbreytt dýralífið er þar að finna merkilega jarðsögu, stórbrotið landslag og ríka menningu. Þar hafa Maasai hirðingar nefnilega beitt nautgripum sínum um aldir.

Maasai fólkið er sá ættbálkur sem ferðamenn taka helst eftir í Keníu og Tansaníu enda eru þeir auðþekkjanlegir; hávaxnir og haldandi á priki með „shukas” sveipuð um sig, litrík klæði sem áhrif hafa haft á vestrænan tískuheim. Maasai menn eru um átta milljónir, þar af er um milljón talin búa í Tansaníu en sem hálf-hirðingar flakkar hluti þeirra á milli landanna tveggja. Ég ætla ekki að opinbera hér vanþekkingu mína á Maasai fólki en vísa í ágætar greinar: Masai fólkið í Norongoro gígnum og The Great Serengeti Land Grab og bók The white Maasai.

Maasai maður með shukas, staf og lifibrauðið.

Einn daginn ókum við inn í auðnina og heimsóttum tvo afar ólíka ættbálka, Hadzabe og Dakota fólkið. Báðir hópar eru alvanir heimsóknum og búnir að þróa kennslufræðilega kórrétt prógramm og sýnikennslu um sérstöðu  lifnaðarhátta sinna. Það var hrífandi að kynnast fólki sem viðheldur fornum siðum og mengar jörðina minnst af okkur öllum.

Einhvern veginn fylltist ég samt sömu sorg yfir hlutskipti frumbyggja og ég gerði þegar ég heimsótti Kulusuk á Grænlandi fyrir fimmtíu árum og árin sex sem ég bjó á Samaslóðum í Svíþjóð. Ég á erfitt með að lýsa þessari sorg í þeim fáu orðum sem ég á eftir af þessu bloggi en verð líklega að heimsækja tansaníska frumbyggja aftur til að setja orð á tilfinninguna.

En hér má finna fróðlega grein um Hadza-verkefnið.

Falleg fjölskyldumynd úr Hadzabe þorpi sem Hulda Ólafsdóttir tók.

Hulda Ólafsdóttir tók þessa fallegu mynd af Hadzabe fjölskyldu. Það vakti athygli okkar hvað karlmennirnir virtust vera mikið með börnin.

Ég með mannfræðigleraugun meðal Hadza.

… svo lýkur frásögninni á fyrsta degi

Hins vegar fann ég til einskærrar  hamingju þegar Iraqw ættbálkurinn umfaðmaði okkur við komuna til Karatu. Iraqw er fólkið þeirra Resty og Olivu og hópurinn fagnaði tilvonandi vináttu okkar með dansi, söng og trumbuslætti og reyndi auðvitað, með misjöfnum árangri, að kenna okkur taktana.

Ég er Önnu og Viðari ákaflega þakklát fyrir að skipuleggja þessa ógleymanlegu lífsreynslu sem ég vona að fleiri fái einhvern tíma notið.

Í lokin langar mig að tilkynna að ég tek gjarnan að mér að kenna hópum ferðaskrif – og að tvö sæti eru laus í Indlandsævintýrið haustið 2025.

En það verður önnur saga.

Það fallegasta sem ég sá í Tansaníu var fólk sem leiddist. Jafnvel þótt það þekktist ekki. Hér leiðir skólastjóri Bashay-grunnskólans Önnu á milli bygginga.

Eignandi örlítillar búðar sem líklega hefur notið stuðnings Women Power.

Áhrifa Bob Marleys gætir víða, hér meðal Hazda.

Edda tekur lagið með Freddie Mercury.

SJÁUMST SÍÐAR!